Siglingar eru í senn íþrótt, afþreying og lífstíll. Seglbátum er gjarna skipt í kænur og kjölbáta.
Seglskip sem mætast
Þegar tvö seglskip nálgast hvort annað þannig að hætta er á árekstri skal annað þeirra víkja fyrir hinu samkvæmt eftirfarandi reglum.
- Þegar þau hafa vind á gagnstæð borð skal skipið sem hefur vindinn á bakborða víkja fyrir hinu.
- Þegar bæði hafa vind á sama borð skal skipið sem er á kulborða víkja fyrir hinu sem er á hléborða.
- Ef skip með vind á bakborða sér skip á kulborða og getur ekki með vissu ákvarðað hvort hitt skipið hefur vindinn á bakborðs- eða stjórnborðshlið þá skal víkja fyrir því skipi.
Kænur
Kænur eru minni bátar og frekar hugsaðir til siglinga nálægt landi eða á vötnum. Allir geta stundað kænusiglingar og hægt er að sigla nánast allt árið um kring. Það er bara spurning um réttan útbúnað og bát við hæfi miðað við stærð og þyngd siglingamannsins.
Öryggisbúnaður
- Viðurkennd björgunarvesti sem eru CE merkt og henta þyngd notandans.
- Góður klæðnaður. Blaut-eða þurrbúningar eru mjög góðir.
- Flothólf til að halda skútunni á floti ef hún veltur.
- Árar
- Ausur (verða að vera bundnar við bátinn)
- Kaðall (s.s. ef draga þarf skútuna eða binda hana við bauju eða bryggju)
Góð ráð
Til að fyrirbyggja slys í kænu skal:
- Yfirfara stög, stýri og annan búnað áður en lagt er af stað í siglingu.
- Láta vita af ferðum sínum og fylgjast með veðurspám.
- Ekki sigla einbáta.
- Ekki fara of langt frá landi.
- Þjálfa sig í að rétta við skútuna ef hún fer á hliðina.
Að rétta skútu við
![]() |
Skútu siglt eðlilega. |
![]() |
Skúta fer á hliðina. Fremri maður skríður yfir borðstokkinn og stígur á kjölinn. |
![]() |
Stýrimaður fer ýmist yfir borðstokkinn eða fer í sjóinn og syndir aftur fyrir bátinn og kjölmegin við hann. |
![]() |
Með því að toga í bátinn og stíga á kjölinn snýst báturinn á réttan kjöl. |
![]() |
Tæma þarf bátinn. Sumir bátar eru með einstreymisloka sem gera það, annars þarf að nota ausu. |