Að festa barnið

Mikilvægt er að gæta þess að ekki sé snúið upp á beltin í barnbílstólnum, þau þurfa að vera slétt og falla þétt að líkamanum.

Kannaðu það með því að renna fingrum á milli beltis og barns, þú átt í mesta lagi að koma 2-3 fingrum á milli.

Athugaðu að barnið getur verið klætt í þykkan fatnað einn daginn og verið léttklætt hinn. Mikilvægt er að stilla alltaf beltin í stólnum þannig að þau falli þétt að líkamanum. Gæta þarf þess að bílbeltið sé ekki snúið þegar að það er þrætt í festingarnar á stólnum. Ef beltið er snúið getur það gefið eftir í árekstri með alvarlegum afleiðingum.

Hætta getur myndast ef barnabílstóll er settur ofan á spennuna í bílbeltinu. Spennan er oft mjög þétt við sæti bílsins og getur auðveldlega lent undir stólnum. Dæmi eru um að í árekstri hafi stóllinn losnað vegna höggs sem kom á spennuna og við það opnaðist hún.

Sessa með baki

Að festa barniðEf barnið er að nota sessu með baki þarf að gæta þess að bílbeltið sé ekki snúið – það á að sitja slétt á barninu. Mikilvægt er að kippa snöggt í beltið til að kanna að það sé fast. Alvarleg slys hafa orðið á börnum í bílum af því að beltið stóð á sér eða það hafði snúist upp á það og þá virkuðu þau ekki þegar áreksturinn varð. Þar sem flest börn sem farin eru að nota sessu sjá sjálf um að festa sig er mikilvægt að kanna þetta í hvert sinn sem ekið er með barnið á sessunni.

Ef barnið losar beltið

Sum börn taka skyndilega upp á því að losa sig úr belti barnabílstólsins, klæða sig úr efri böndum beltisins eða setja bílbeltið fyrir aftan bak eða undir handlegginn. Því miður er ekki til búnaður sem foreldrar geta keypt til að hindra það að börn geti losað sig sjálft og ekki má binda eða líma saman beltin.

Best er að útskýra fyrir barninu á einfaldan hátt af hverju það þarf að vera í öryggisbúnaði og banna því að losa sig. Jafnvel ungt barn skilur þegar það er að gera eitthvað sem það má ekki. Eftirfarandi ráð gætu einnig hjálpað þér við þetta vandamál:

  • Vertu góð fyrirmynd og notaðu alltaf bílbelti.
  • Dragðu athygli barnsins frá beltinu með skemmtilegri sögu eða söng.
  • Ekki setja bílinn af stað fyrr en allir eru spenntir í belti.
  • Ef barnið losar sig á meðan bílinn er á ferð, skaltu stoppa á öruggum stað og ræða aftur við það um mikilvægi þess að vera í belti.