Slys á börnum í bílum

Mörg börn slasast í árekstrum vegna þess að þau eru ekki fest í öryggisbúnað, ranglega fest eða ranglega staðsett í bílnum. Hægt er að koma í veg fyrir þessi slys.

Banaslys á börnum í bílum

Alls létust 10 börn í bílum á árunum 1990-2004. Eitt þeirra barna var ekki í öryggisbúnaði og fjögur börn voru ranglega fest í búnað.

Fjögur börn voru á aldrinum 0-5 ára og sex börn á aldrinum 6-13 ára.

Rangur búnaður og röng notkun

Um helmingur barna á aldrinum 0-5 ára eru ekki rétt fest í barnabílstólum, þ.e. í stól sem hæfir þeirra aldri/þyngd eða eru ranglega staðsett í bílnum.

Enn færri börn á aldrinum 6-12 ára nota viðeigandi öryggisbúnað. Algengt er að þau sitji eingöngu í bílbeltum og mörg eru í framsæti. Staðreyndin er sú að börn lægri en 150 cm hafa ekki náð þeim vexti eða þroska sem þarf til þess að bílbelti í framsæti hlífi þeim við áverkum í umferðarslysi.

Algeng mistök

Dæmi um algeng mistök á notkun öryggisbúnaðs í bílnum:

  • Búnaður er ranglega festur í bifreið og losnar við árekstur.
  • Búnaður hæfir ekki aldri, þyngd og þroska barnsins.
  • Búnaður er of gamall og veitir ekki tilætlað öryggi.
  • Barn er eingöngu fest í bílbelti sem liggur yfir háls þess og kviðarholslíffæri.
  • Barn er eingöngu fest í tveggja-punkta belti og kastast úr sæti sínu við árekstur.
  • Barn er á sessu án baks og sessan rennur undan því við árekstur.
  • Of lítið barn er á sessu án baks með efri hluta beltis (skábelti) aftur fyrir bak.
  • Bílsæti er hallað aftur og barnið kastast úr sæti sínu við árekstur.

Helmingur barna 0-5 ára eru ekki rétt fest í barnabílstólum

Aldrei skilja barn eftir eitt í bíl

Skiljið aldrei ung börn eftir ein í bíl. Það getur verið freistandi að skjótast inn í búð á meðan litla barnið sefur en biðröðin á kassanum getur verið löng og barnið vaknað. Dæmi er um að börn hafi þornað upp (liðið vökvaskort) þegar mikil sól hefur verið úti og þau grátið mikið.

Þrisvar sinnum hefur það komið fyrir hér á landi að bílum var rænt með sofandi barni í vegna þess að þeir voru skildir eftir opnir og í gangi eða opnir með lykilinn í. Það geta allir ímyndað sér hversu illa foreldrunum brá þegar þau uppgötuðu það. Engu barnanna varð meint af.