Barnshafandi kona á alltaf að nota bílbelti.
Oft vakna spurningar um öryggi ófædda barnsins lendi konan umferðarslysi með bílbelti spennt. Staðreyndin er sú að bæði kona og barn eru mun öruggari sé beltið spennt.
Rétt notkun bílbeltis fyrir barnshafandi konu
Ef kona er í þykkum fatnaði, kápu eða jakka, getur verið erfitt fyrir hana að halda beltinu á réttum stað. Það getur því hjálpað til að hún sé í hlýrri flík sem fellur þétt að líkamanum þegar hún ferðast í bíl.
Beltahaldari
Beltahaldari er búnaður sem hægt er að nota til að halda bílbeltinu á réttum stað á líkamanum. Beltahaldari er ekki öryggisbúnaður heldur einungis notaður til þæginda fyrir konuna þannig að hann er ekki nauðsynlegur búnaður.
Barnshafandi sem ökumaður
- Ef bílbelti er of stutt þannig að þú getur ekki spennt það á þig þá getur þú reynt að færa sætið aftur.
- Ef sætinu er ýtt aftur þarf að huga að staðsetningu spegilsins að nýju og jafnvel stilla hann á ný.
- Mikilvægt er að færa sætið ekki það langt aftur að þú eigir í erfiðleikum með að ná niður á bremsur og kúplingu en það truflar akstur og getur valdið óhöppum.
- Ef þetta dugar ekki er ekki óhætt fyrir þig að keyra án beltis.
Barnshafandi sem farþegi
- Þú getur setið í framsæti þrátt fyrir að það sé öryggispúði í mælaborði.
- Mikilvægt er að þú stillir sætið eins langt aftur og hægt er en gætir þess um leið að beltið passi utan um þig.
- Ef beltið nær ekki verður þú að finna önnur ráð því þú mátt ekki vera laus í bílnum.
- Ekki er til búnaður til að lengja beltin. Möguleiki er á að setja sig í samband við bílaumboðið til að kanna hvort hægt sé að fá lengri belti í bílinn. Þetta á sérstaklega við um nýja og nýlega bíla.