Að festa stólinn

Að festa barnabílstól rétt í bíl getur verið erfiðara en það virðist vera. Allt að 85% af barnabílstólum eru ranglega festir – oft með alvarlegum afleiðingum í árekstri.


Hvar í bílnum á barnið að sitja?

Öruggasti staður fyrir barnabílstól er þar sem framleiðandi gefur upplýsingar um að megi setja hann. Aldrei setja bakvísandi barnabílstól í framsæti ef þar er virkur öryggispúði, og aldrei má festa framvísandi stól í framsæti né sessu með baki þó þar sé ekki virkur öryggispúði því hætta er á að ung börn geti slasast frekar þar en í aftursætum .

Barn undir 150 cm á hæð má ekki sitja í framsæti bíls ef þar er virkur öryggispúði. Ekki má hækka barn upp með því að setja það á sessu með baki í framsæti ef öryggispúðinn er virkur farþegamegin.

Mikilvægt að lesa leiðbeiningarnar

Þegar þú kaupir barnabílstól er mikilvægt að biðja um leiðbeiningarnar á íslensku. Það skiptir miklu máli að lesa leiðbeiningarnar frá A-Ö. Ef þú ert enn í vafa um hvernig á að festa búnaðinn rétt, þrátt fyrir að þú sért búinn að lesa leiðbeiningarnar vel, kannaðu þá hvort hægt sé að finna leiðbeininga myndbönd á netinu eða hafðu þá samband við verslunina þar sem búnaðurinn var keyptur.