Notaðir barnabílstólar

Hér á landi er algengt að foreldrar kaupi, leigi eða fái lánað notaðan barnabílstól. Mikilvægt er að kanna aldur og ástand stólsins vel til að tryggja að hann sé öruggur.

Að kaupa notaðan barnabílstól

Á netinu og í blöðum er oft að finna auglýsingar um notaða barnabílstóla til sölu. Miðstöð slysavarna barna mælir ekki með því að notaður öryggisbúnaður sé keyptur af ókunnugum þar sem ekki er hægt að kanna með vissu sögu stólsins, s.s. hvort hann hefur lent í tjóni.

Að leigja barnabílstól

Hægt er að fá barnabílstóla leigða hér á landi. Mikilvægt er fyrir foreldra að vita að ekkert eftirlit er með fyrirtækjum sem leigja öryggisbúnað hér á landi.

Þegar barnabílstóll er leigður skal kanna hvaða vinnureglur gilda um búnaðinn hjá leigjandanum. Athugaðu hvort að búnaðurinn sé útrunninn eða hvort hann hefur lent í árekstri. Fáðu aðstoð við að festa hann rétt í bílinn og fáðu líka leiðbeiningar á íslensku til að taka með þér.

Ungbarnabílstóll endist í 5 ár frá söludegi

Að fá lánaðan barnabílstól

Margir foreldrar fá lánaðan barnabílstól frá ættingjum og vinum, eða endurnýta gamla barnabílstóla frá eldri börnum sínum.

Mikilvægt er að kanna hver aldur búnaðarins er. Miðað er við að ungbarnabílstólar endist í 5 ár frá söludegi vegna þess hvað þeir eru í mikilli notkun. Bæði er hann notaður undir barnið í bílnum en ekki síst sem burðarstóll þegar að barnið er tekið úr bílnum. Allt þetta hefur áhrif á burðarþol hans. Öryggisbúnaður fyrir eldri börn endist í 8-10 ár.

Hvenær var bílstóllinn framleiddur?

Framleiðsludagsetningu barnabílstóla er hægt að finna aftan á stólunum. Til dæmis, á meðfylgjandi mynd sést að þessi stóll var framleiddur í apríl 2007 (04/2007).

Ef þú ætlar að fá lánaðan öryggisbúnað þá er best að fá hann frá einhverjum sem þú þekkir vel og getur treyst. Mikilvægt er að spyrja viðkomandi hvort búnaðurinn hafi lent í árkesti eða öðru umferðaróhappi, því þá er hann ónýtur þrátt fyrir það að ekki sjáist á honum skemmdir. Öryggisbúnaður getur orðið ónýtur við það eitt að detta einn metra niður á gólf án þess að það sjáist á honum. Stólar sem búið er að fara mikið með í flug geta einnig verið ónýtir þar sem þeir fá oft ekki blíða meðferð.

Farðu vel yfir allar festingar, t.d. beltisfestingarnar. Ef plastið er upplýst í kringum festingarnar þá er búnaðurinn ekki í lagi. Einnig þarf að kanna beltin í honum að þau séu ekki trosnuð og að spennan sé í lagi (hún á ekki að opnast öðruvísi en að ýtt sé á lásinn).

Þó að allt þetta sé í lagi mælir Miðstöð slysavarna barna ekki með því að fólk fái búnað að láni öðruvísi en að upprunalegu leiðbeiningarnar fylgi honum eða að þær finnist á heimasíðu framleiðandans.

Aldrei taka þá áhættu að festa stólinn í bílinn öðruvísi en að lesa leiðbeiningarnar sem fylgja honum – fyrrum eigandi gæti verið búinn að gleyma hvernig á að festa hann rétt.