Að velja barnabílstól

Gefðu þér góðan tíma til að velja öryggisbúnað fyrir barnið í bílnum. Ungbarnastól þarf að kaupa og máta í bílinn áður en barnið fæðist.

Árið 2013 tók ný reglugerð í gildi sem er Númer W129 og gengur undir nafninu I-size en gamla reglugerðin ECE R 44.04 er enn í gildi. Mikið úrval er af búnaði sem uppfyllir eldri reglugerðina en ungbarnabílstólar sem uppfylla þá nýju eru einnig komnir á markað hér á landi. Ungbarnastólar sem fást í I-size eru upp í 83 cm. eða um 15 mánaða aldur Hér er hægt að finna nánari upplýsingar um W129 eða I-size.

Gefðu þér tíma til að skoða heimasíður og úrval í verslunum og veldu réttan barnabílstól fyrir barnið, þig og bílinn.

Lestu vandlega allar leiðbeiningar sem fylgja með bílnum og barnabílstólnum því barnabílstólar eru ekki allir eins í notkun en þar er einnig að finna nauðsynlegar upplýsingar sem skipt geta máli þegar kemur að öryggi barnsins.

Fit finder

Það passa ekki allir barnabílstólar í alla bíla. Sæti í bílum eru mismunandi að lögum, sætisbeltin mismunandi í lengd og þau spennt á mismunandi stöðum í bílnum.

Flestir framleiðendur barnabílstóla eru með „fit finder“ á heimasíðu sinni þar sem þér gefst kostur á að slá inn árgerð og heiti bílsins til að kanna hvort bílstóllinn passi í hann.

Ef öryggisbúnaðurinn er með ISOFIX festingar þá þarf eftir sem áður að kanna hvort ISOFIXIÐ sé eins því 3 mismunandi tegundir eru til af ISOFIXI.


Barn yngra en 1 árs má ekki snúa í akstursstefnu. Ástæðan fyrir því er að höfuð barns yngra en 1 árs er 25% af heildarþyngd líkama þess. Hálsliðir barna yngri en 3 ára eru viðkvæmir. Þeir eru samansettir úr beina bútum sem tengjast með brjóski í stað heils beins. Hálsliðir eru einnig flatir en ekki söðullaga eins og hjá eldri börnum og fullorðnum sem þýðir það að ef barn undir 1 árs snýr fram og bíllinn sem það er í lendir í framanákeyrslu á miklum hraða getur mænan og heilinn skaðast.

Ef barnið þitt nær 13 kg fyrir 1 árs aldur er mikilvægt að kaupa bílstól í næstu stærð fyrir ofan helst barnabílstól sem er einungis bakvísandi og er upp í 25 kg. Einnig eru fáanlegir stólar sem geta bæði verið fram- og bakvísandi. Notið hann bakvísandi fyrir barnið þangað til að það hefur náð 1 árs aldri eða eins lengi og hægt er.

Þegar barnið er orðið 1 árs má það snúa fram en það er öruggara að hafa það áfram bakvísandi til 3-5 ára aldurs. Best er að barnið noti barnabílstól upp í 18 eða 25 kg.

Þegar barnið hefur vaxið upp úr barnabílstólnum (við 18 eða 25 kg) má það fara að nota sessu með baki. Barnið þarf að nota sessu með baki þangað til að það hefur náð 36 kg eða 10-12 ára aldri. Þá fyrst getur það byrjað að nota einvörðungu bílbelti.

Mikilvægt er að nota ekki sessu án baks því það er lakari búnaður. Í hörðum árekstrum getur sessa án baks runnið undan barninu með þeim afleiðingum að barnið slasast illa undan belti bílsins. Beinagrind barns er ekki nægilega sterk til að taka við höggi frá bílbelti fyrr en um 10-12 ára aldur eða 36 kg.