Öryggisatriði
- Líftími hjálms er u.þ.b. 5 ár frá því að hann er keyptur.
- Ef hjálmur skemmist, brotnar eða það koma sprungur í hann, þarf að kaupa nýjan.
- Ekki má líma límmiða á hjálm eða skrifa með tússpenna á hann því það getur eyðilagt virkni hjálmsins.
- Það má einungis nota buff eða lambhúshettu sem fellur þétt að höfðinu undir hjálminn þegar kalt er. Húfa er ekki skorðuð á höfðinu og getur færst til og hjálmurinn líka.
- Reiðhjólahjálminn má einnig nota þegar að börn eru á línuskautum, hjólabrettum og hlaupahjólum. Ekki má nota hann í útreiðatúrum eða á skíðum en þá þarf að nota reiðhjálm og skíðahjálm.
Að velja rétta stærð
Þegar hjálmur er valinn er mikilvægt að mæla ummálið á höfði barnsins. Málbandið er lagt rétt fyrir ofan augabrúnir og lagt beint hringinn í kringum höfuðið. Ef höfuð barnsins er 58 cm þá er valin miðstærð af hjálmi sem er gefin upp frá 56-60 cm.
Að stilla hjálminn
Til þess að hjálmurinn geri sitt gagn þarf hann að vera rétt stilltur:
Þegar hjálmurinn er stilltur þarf að setja hann beint niður á höfuðið eins og myndin sýnir. Hjálmurinn má ekki halla aftur á höfðinu þá er ekki hægt að stilla hann rétt. | |
Byrjað er á því að stilla aftara bandið en það á að vera slétt. Aftara bandið tengist fremra bandinu með spennu en spennan á að sitja beint fyrir neðan kjálkaliðinn. Ef þetta er ekki stillt rétt er ómögulegt að stilla bandið undir hökunni. | |
Bandið undir hökunni á að falla það þétt að einungis er hægt að koma einum fingri á milli. Það á ekki að herðast að. Betra er að hafa spennuna aðeins til hliðar til að koma í veg fyrir að hún klemmist í barnið þegar henni er lokað. | |
Að lokum þarf að kanna hvort hjálmurinn sitji ekki örugglega þétt að höfðinu. Það er prófað með því að taka utan um hjálminn eins og myndin sýnir og hreyfa höfuð barnsins fram og aftur og til hliðar. Hjálmurinn má ekki færast til nema um nokkra millimetra. Ef hann er lausari en það, þarf að fara yfir allar stillingar að nýju. |