Þegar barnið byrjar á leikskólanum er mikilvægt að foreldrar gangi úr skugga um að leikskólinn uppfylli öll tiltæk skilyrði um öryggi barna.
- Eldvarnir. Mikilvægt er að kanna hvort húsið uppfylli ekki örugglega öll ákvæði um eldvarnir og að starfsfólkið æfi það reglulega hvernig á að bjarga börnunum út ef að það kviknar í og að allir starfsmenn kunni á eldvarnartækin.
- Viðbragðsáætlun og skyndihjálp. Kanna þarf hvort viðbragðsáætlun sé til staðar ef að slys ber að höndum og að allir starfsmenn leikskólans hafi sótt sérstakt námskeið í slysavörnum og skyndihjálp, að sjúkrakassinn sé í lagi og að allir kunni á hann.
- Öryggisbúnaður. Mikilvægt er að húsnæðið uppfylli öll skilyrði um öryggi, t.d. klemmuvarnir á öllum hurðum og að allir speglar séu festir á vegg þannig að þeir geti ekki dottið yfir börn.
- Lóðin. Mikilvægt er að kann að lóðin í kringum leikskólann sé örugg og að hún uppfylli öll ákveði reglugerðar um öryggi leikvallatækja og svæða.
Ábyrgð á öryggi barna í leikskólanum erum á herðum beggja aðila og samskipti þurfa að vera skýr.
Upplýsingar um barnið
Mikilvægt er að láta starfsmenn leikskólans hafa allar upplýsingar um barnið sem skipta máli. Ekki gleyma því að láta starfsfólkið vita um vinnustaði foreldra og öll símanúmer þar sem hægt að ná í ykkur ef eitthvað kemur uppá. Því miður hefur orðið misbrestur á þessu og tekið hefur óratíma að finna foreldra þegar að slys hefur orðið sökum þess að þeir höfðu skipt um símanúmer í farsímanum.
Öryggishandbók fyrir leikskóla
Öryggishandbók fyrir leikskóla er handbók sem inniheldur öll atriði sem skipta máli í leikskólastarfinu. Handbókina er hægt að finn á vef menntamálaráðuneytis www.menntamalaraduneyti.is