Hlaup

Að hlaupa er góð og krefjandi hreyfing sem þjálfar stoðkerfið, vöðva, sinar og liðamót, hjarta- og æðakerfi, lungu og taugakerfið.

hlaup_myndFólk á öllum aldri æfir hlaup, ýmist úti eða inni á hlaupabrettum, einsamalt eða í hópi, sér til heilsuhreyfingar eða til að þjálfa fyrir keppnir. Þátttaka í skemmtihlaupum hér á landi hefur stór aukist að undanförnu og tekur fólk því mis-alvarlega.

Byrjendur ættu að varast að fara of greitt. Byrjið á stuttum vegalengdum og bætið hægt við eftir getu. Mælt er með að byrjendur á miðjum aldri og annað fólk í áhættuhópum leiti til læknis áður en þeir hefja æfingar til að kanna hjarta- og æðarkerfi líkamans.

Algeng meiðsl

Algengasta meiðsl hlaupara eru blöðrur á fæti. Huga þarf vel að blöðrum til að koma í veg fyrir sýkingu. Önnur meiðsli eru ýmist af völdum ofálags eða slys.

  • Álagsmeiðsli eru m.a. beinhimnubólga, hásinaslíðrabólga og „hlauparahné“.
  • Meiðsli vegna slys eru t.d. liðbandatognanir á ökkla og tognanir framan og aftan á lærum.

Góð ráð

Til að fyrirbyggja meiðsl ættu hlauparar að:

  • Hita upp og kæla niður með því að skokka hægt.
  • Nota rétta skó sem henta hlaupaálagi og fótagerð.
  • Drekka nægilegan vökva fyrir hlaup, á meðan á hlaupi stendur og eftir hlaup. Gott getur verið að taka vatn með sér í lengri hlaup.
  • Hvíla í 24-48 klst á milli hlaupa. Þá er hægt að stunda aðra létta hreyfingu, s.s. að synda, hjóla eða ganga.
  • Hætta að hlaupa ef hann/hún finnur fyrir sársauka. Sársauki er skilaboð frá líkamanum um að hann þoli ekki álagið.
  • Hlaupa helst á sléttum, jöfnum og mjúkum hlaupabrautum og forðast að hlaupa í ójöfnu, á sandi eða á steypu.
  • Klæða sig eftir veðri og aðstæðum.
  • Láta vita af ferðum sínum, hvenær hann/hún kemur heim og ekki víkja frá þeirri áætlun án þess að láta aðstandendur vita.