Í bílnum
Við undirbúning útilegu þarf að hafa í huga að hlaða ekki bílinn um of. Aksturseiginleikar bílsins breytast og laus farangur getur valdið skaða ef hann lendir á farþega við árekstur.
Í útilegunni
Í útilegunni þarf að hafa eftirfarandi í huga:
- Akið hægt um tjaldsvæðið og verið sérstaklega á varðbergi þegar bakkað er. Börn geta verið að leik við götuslóðina.
- Ef börn eru með í för, látið þau ekki hlaupa um tjaldsvæðið án þess að kynna ykkur umhverfið fyrst.
- Farið varlega með gas nálægt tjaldinu. Ef eldað er á gasgrilli, þarf að passa að ekki kvikni í gróðri.
- Ef eldað er á kolagrilli, þarf að staðsetja það þannig að eldur nái ekki í tjald eða gróður. Aldrei sprauta íkveikilög á logandi kolagrill. Gangið tryggilega frá grillinu eftir notkun og ekki kasta heitum kolum þar sem hætta er á íkveikju
- Ef prímus er notaður til að hita upp tjald, staðsetjið hann vel svo hann velti ekki og ekki hreyfa við honum þegar hann er í gangi. Farið aldrei að sofa með hann í gangi. Geymið gaskútana utan tjaldsins þegar þeir eru ekki í notkun.
- Geymið ekki eldspýtur eða eggvopn, s.s. beitta hnífa eða skæri þar sem börn ná til.
- Geymið aldrei verðmæti í tjöldum. Þau eru auðveld skotmörk þjófa.