Skautar

Að skauta er skemmtileg og góð hreyfing fyrir alla fjölskylduna. Huga þarf að öryggi til að fyrirbyggja slys, s.s. fall og árekstur við aðra.

skautar_myndBörn eru sérstaklega viðkvæm því samhæfing, viðbragðshæfni og jafnvægisskyn þeirra eru enn að þroskast.

Meiðsl

 • Algengustu meiðsl á skautum eru mar (oftast á neðri líkama) og tognun eða beinbrot (oftast á úlnlið).
 • Algengustu orsök meiðsla eru fall og árekstur við aðra.
 • Eitt alvarlegasta slys á skautum eru höfuðáverkar, þá helst heilahristingur.
 • Alvarlegir finguráverkar hafa einnig orðið þegar að börn hafa dottið og einhver skautað yfir fingur þeirra

Öryggisatriði

 • Skautið á öruggum stöðum, helst á þar til gerðum skautasvellum.
 • Gott er að fara á námskeið til að læra einfalda tækni, s.s. hvernig sé best að stoppa og detta.
 • Verið á varðbergi fyrir sprungum, götum eða öðrum aðskotahlutum á svellinu.
 • Passið ykkur á öðrum skauturum – þú vilt hvorki vera fyrir byrjendum sem kunna illa að stoppa né þeim sem eru vanir og skauta á miklum hraða.
 • Ef þú dettur, stattu sem fyrst upp. Það er erfiðara að sjá þig þegar þú situr/liggur lágt niðri.
 • Ekki standa kyrr á svellinu. Farðu af svellinu ef þú þarft að stoppa til að heilsa einhverjum, svara í síma, fara í eða úr fatnaði, o.s.frv.

Búnaður

 • Skautar. Skautar þurfa að vera í réttri stærð og veita ökklum góðan stuðning. Mælt er með skautum úr leðri. Áður en nýir skautar eru teknir í notkun þarf að slípa þá sérstaklega fyrir þann sem á að nota þá. Ekki er æskilegt að börn séu að notast við notaða skauta öðruvísi en að fagmaður hafi slípað þá sérstaklega til viðkomandi.
 • Skerping. Passa þarf vel uppá blöðin undir skautunum og láta skerpa þau reglulega. Notið skauthlífar þegar gengið er á skautum utan við svellið.
 • Fatnaður. Mælt er með hlýjum og teygjanlegum fatnaði. Sleppa skal löngum treflum, hangandi reimum, skartgripum, peysum með hettum og annan fatnað sem gæti flækst og þrengt að öndunarvegi.
 • Hjálmur. Börn skulu vera með hjálm þegar þau eru á skautum. Hægt er að nota ísknattleikshjálma og reiðhjólahjálma.
 • Hlífar. Einnig er mælt með að börn noti hné-, olnboga- og úlnliðshlífar.

Skautað utandyra

Sýna skal sérstaka aðgát þegar skautað er utandyra á frosnu vatni eða tjörn. Veljið þá helst ís yfir grunnu vatni til að þess að ekki sé of erfitt að komast uppúr ef ísinn brestur.

Ísinn þarf að vera a.m.k. 10 cm þykkur til þess að öruggt sé að skauta á honum. Ísinn getur verið mis-þykkur þannig að gott er að mæla hann á nokkrum stöðum. Taka skal fram að nýfallinn snjór myndar einangrun og veikir ísinn.

Góð ráð þegar skautað er utandyra:

 • Skautið ekki ein og ekki í myrkri.
 • Takið með reipi eða stöng til að aðstoða við björgun ef einhver dettur í gegnum ísinn.

Ef þú dettur í gegnum ísinn skaltu:

 • Snúa þér að bakkanum og halla þér að ísnum.
 • Teygja hendurnar uppá ísinn og sparka.
 • Ekki standa upp þegar þú kemst uppá á ísinn. Liggðu á ísnum og rúllaðu þér frá gatinu.
 • Aðstandendur ættu ekki að hlaupa út á ísinn því þá brotnar hann enn meir og þau detta líka í vatnið.
 • Ef sá sem dettur kemst ekki upp úr vatninu án aðstoðar, skal kasta til hans reipi, stöng eða trjágrein og toga hann uppúr.