Reiðhjól fyrir börn

Að hjóla er góð æfing fyrir börn. Það þjálfar vöðva barnsins, samhæfingu handa og fóta og jafnvægi. Mikilvægt er að velja hjól sem hæfir þroska og aldri barnsins og að hjólið sé með öllum nauðsynlegum öryggisbúnaði.

Tvíhjól eða þríhjól?

ÞríhjólÆskilegt er bíða með hjól fyrir börn þangað til að þau eru 3 ára og velja þá þríhjól. Best er að bíða með tvíhjól þar til barnið er 5-6 ára en þá hefur barnið þroskað með sér jafnvægið. Hjálpardekk eru ekki góður kostur þar sem þau veita barninu falskt öryggi um að það hafi náð jafnvægi.

Af hverju ekki tvíhjól með hjálpardekkjum?

Börn á tvíhjóli með hjálpardekkjum ná oft meiri hraða á hjólunum en þau ráða við. Fjöldi slysa hafa orðið þegar börn hafa hjólað of hratt og þurft að beygja eða hemla snögglega en ekki náð því.

Einnig hafa alvarleg slys hafa orðið þegar börn á tvíhjólum með hjálpardekkjum hafa hjólað of nærri gangstéttarbrún og hjálpardekkið farið út fyrir hana, hjólið oltið út á götu og barnið dottið í veg fyrir bíl.

Ef foreldrar ákveða að velja tvíhjól með hjálpardekkjum er öruggast að barnið hjóli á svæði fjarri umferð. Þjálfa þarf barnið í að bremsa, halda í hjólið niður brekkur og forðast að hjóla of nálægt gangstéttarbrúnum.

Hafið í huga að þegar börn beygja á tvíhjóli með hjálpardekkjum halla þau sér í öfuga átt en þau gera án hjálpardekkja. Það verður því flóknara fyrir þau að læra að beygja á venjulegu hjóli.

Tvíhjól

Þegar barnið hefur náð 5-6 ára aldri er hægt að kenna því að hjóla á tvíhjóli án hjálpardekkja. Þegar barnið hefur náð tökum á að hjóla sjálft á tvíhjólinu er þjálfun þess langt frá því að vera lokið. Það þarf að æfa barnið í að taka beygjur, hemla og hjóla í halla. Þau þurfa einnig að læra að taka tillit til gangandi vegfarenda og almennar umferðarreglur sem gilda fyrir reiðhjólamenn. Brýnið fyrir barninu að leiða hjólið alltaf yfir gangbrautir. Slys hafa orðið þegar börn hafa hjólað yfir gangbraut og verið svo einbeitt að því að þau taka ekki eftir bílum sem nálgast.

Hversu stórt á hjólið að vera?

Hafið barnið með þegar reiðhjól er keypt til þess að velja rétta stærð. Yngri börn þurfa að ná að stíga með báðum fótum niður þegar setið er á sætinu í neðstu stillingunni en börn á skólaaldri þurfa einungis að geta tyllt öðrum fætinum niður.

Hvernig hemlar eiga að vera á hjóli barnsins?

Fyrsta tvíhjól barnsins skal vera með fótbremsum. Barn á erfitt með að grípa utan um handbremsur á ferð þar sem það þarf að losa takið á stýrinu á meðan. Við það getur það misst jafnvægið og dottið. Hendur barna eru líka oft smáar og þess vegna er erfitt fyrir barnið að ná í handbremsurnar.

Barnið þarf að hafa náð góðri þjálfun á tvíhjóli áður en það fer á hjól með handbremsum. Reiðhjól með gírum eru alls ekki ætluð ungum börnum.

Hvar er öruggast fyrir barnið að hjóla?

Reiðhjól - börnÁður en barnið fer út á nýju hjóli þarf að velja svæði sem eru örugg fyrir barnið að hjóla á. Gatan fyrir framan heimilið er alls ekki rétti staðurinn, þó að íbúðahverfið teljist vera rólegt hverfi. Brýnið fyrir barninu að hjóla aldrei á götunni. Ekki er nóg að fara yfir þetta einu sinni með barninu heldur verða foreldrar sífellt að hafa eftirlit með því. Tilvalið er að nota tímann til að vera úti með barninu og fylgjast þannig með því og leiðbeina á jákvæðan og góðan hátt.

Hvenær getur barnið hjólað í umferðinni?

Miðað við almennan þroska og getu barna er barnið fyrst tilbúið til að hjóla í umferðinni við 10-12 ára aldur. Fram að þeim aldri er fjarlægðarskynið ekki fullþroskað þannig að barninu finnst hlutirnir vera lengra í burtu en þeir í rauninni eru. Yngri börn hafa heldur ekki eins góða hliðarsýn og þau sem eldri eru. Heyrn barna yngri en 8 ára er ekki fullþroskuð og geta þau því ekki greint úr hvaða átt hljóð kemur. Við 10 ára aldur hafa þau náð fullum jafnvægisþroska. Það er því fyrst við 10-12 ára aldur sem þau hafa þroska til að meðtaka allt sem fer fram í kringum þau þar sem þau hjóla.

Áður en barninu er leyft að hjóla í umferðinni er mikilvægt að fara vel yfir umferðareglur hjólreiðamanna.

Hverjar eru helstu orsakir reiðhjólaslysa hjá börnum yngri en 10 ára?

  • Börn beygja skyndilega fyrir bíla.Reiðhjól, börn, slys
  • Börn víkja ekki fyrir bílum.
  • Börn eru annars hugar.
  • Börn stytta sér leið.
  • Börn hjóla á rangri akrein.
  • Börn fara ekki eftir umferðarskiltum.
  • Börn hafa lélegt jafnvægi.