Ekki er óalgengt að börn hljóti brunasár vegna þess að þau hafa verið að fikta í raftækjum, bitið í rafmagnssnúru, stungið hlutum inn í innstungur eða komist í óvarða rafmagnsvíra.
Góð ráð
- Innstungur. Innstungur á heimilinu þurfa að vera heilar og í lagi. Allar nýrri innstungur eru með innbyggðar öryggislæsingar sem draga úr hættunni að börn slasi sig á þeim. Ef innstungur eru af eldri gerð þarf að setja í þær öryggislæsingar eða lok.
- Jarðtenging. Raflagnir í elhúsi, baðherbergi og þvottahúsi skulu vera jarðtengdar.
- Lekastraumrofi. Lekastraumsrofi þarf að vera til staðar og hann þarf að vera í lagi.
- Frágangur. Rafmagnsnúrur ættu ekki að hanga niður á gólf eða liggja eftir gólfinu þar sem barnið getur náð til þeirra. Fjarlægið einnig ónauðsynlegar framlengingasnúrur og fjöltengi.
- Endurnýjun. Rafmagnsnúrur sem eru farnar að trosna þarf að endurnýja.