Öskudagur

Öskudagur er einn skemmtilegasti dagur ársins hjá fjölda barna. Huga þarf að búningar passi vel og séu öryggir. Einnig að nammi eða smá leikföng geti ekki staðið í litlum börnum.

Búningar

  • oskudagur_mynd2Reimar og snúrur. Styttið reimar neðst í fatnaði, í mitti og fjarlægði reimar úr hálsmáli. Einnig er hægt að setja  hnappa, smellur, teygjur eða jafnvel franskan rennilás í staðinn.
  • Sídd og stærð. Varist að hafa öskudagsbúninga of síða þannig að börnin eigi það ekki á hættu að stíga á þá og detta. Leyfið börnum heldur ekki að vera í of stórum skóm (diskó, háhæluðum eða afaskóm).
  • Eldfimi. Efni búninga og grímna eru í eðli sínu eldfimt og lítið þarf til að það kvikni í þeim. Aldrei má vera með eld eða sígarettur nálægt þeim. Gerðar eru kröfur til brunaeiginleika efna s.s. öskudagsbúninga en aldrei má treysta því að ekki geti kviknað í þeim.
  • Endurskinsmerki. Festið endurskinsmerki neðarlega á öskudagsbúningana þannig að þau sjáist frá öllum hliðum.
  • Kuldi. Munið að klæða börnin vel undir búningunum.
  • Aukahlutir. Brýnið fyrir börnum að setja ekki hávaðaleikföng, s.s. byssur upp að eyra (hvorki sínum né annarra). Athugið hvort sverð og annað þ.h. sé oddhvasst. Gætið þess að hattar, gleraugu og grímur takmarki ekki sjónsvið barna.
  • Andlitsmálning. Ekki nota andlitsmálningu sem ekki er ætluð til þess að nota á unga húð. Andlitsmálning sem seld er í leikfangaverslunum eða með búningum fyrir börn á að vera CE merkt til staðfestingar á því að málningin uppfylli allar kröfur sem gerðar eru hér á landi.

Sælgæti og smáhlutir

Smáhlutir og sælgæti eiga enga samleið og vitað er um mörg tilfelli þar sem legið hefur við köfnun þegar börn hafa sett smáhluti upp í sig og haldið það vera nammi. Forðist einnig að velja of stórt nammi sem er hart og erfitt að kyngja.

Farið í gegnum nammið hjá yngstu börnunum og takið stóra nammið frá sem og leikföng/smáhluti.

Umferðin

Miðstöð slysavarna barna mælir með því að foreldrar eða fullorðinn aðili sé með börnum sínum þennan dag.  Látið ekki ung börn vera ein á ferli, jafnvel þó þau séu nokkur saman í hóp. Keyrið þau í fyrirtæki eða verið með þau í verslunarmiðstöðum.

Takið tillit til barna sem þið sjáið í umferðinni. Brýnið jafnframt fyrir ykkar börnum að líta vel til beggja hliða áður en farið er yfir götu og gæta fyllstu varúðar í umferðinni. Ágætt er að minna þau á að aldrei skal fara upp í bíl með ókunnum.