Töluvert er til af öryggisbúnaði fyrir börn og heimili. Þessar vörur er hægt að fá víða s.s. í barnavöruverslunum, lyfjaverslunum, matvöruverslunum, byggingavöruverslunum og húsgagnaverslunum.
Hurðir, gluggar og stigaop
- Öryggishlið fyrir stigaop og hurðir – hindrar aðgengi að tröppum og herbergjum.
- Fingravinur – kemur í veg fyrir að börn klemmi sig á hurðum.
- Öryggislæsing á glugga – til að hindra að börn geti dottið út.
Rafmagnssnúrur og innstungur
- Öryggislæsing fyrir innstungur og fjöltengi – kemur í veg fyrir að skörpum hlutum sé stungið inn í fjöltengið. Þetta er einungis nauðsynlegt í gamlar innstungur.
- Rafmagnssnúruveggfesting – kemur í veg fyrir að þær liggi á gólfinu þar sem börn og aðrir geta dottið um þær.
- Snúrustyttir fyrir rafmagnssnúrur – til að snúrur hangi ekki niður og börn geti ekki togað yfir sig rafmagnstæki.
Húsgögn, raftæki og annað á heimilinu
- Hlífar á hvöss horn – notaðar á hvöss horn sem eru í andlisthæð barna, kemur í veg fyrir skurði.
- Hillu- og skápafesting – til að festa allar hillur, skápa og kommóður við vegg. Þetta eru afar nauðsynlegar framkvæmdir þar sem þessi húsgögn hafa valdið dauðaslysum.
- Öryggislæsing á skápahurðir og skúffur – hindrar að börn komist í hættuleg efni og annað það sem hættulegt er.
- Snúrustyttir fyrir bönd á rúllugardínum – hindrar að börn vefji snúrum utan um hálsinn.
Hlíf á brúnir á arin – til að minnka líkur á áverkum ef börn falla á brúnina. - Arinhlíf – til að hindar að börn komist að eldinum.
Barnaherbergið
- Kokhólkur – samsvarar kokstærð barna yngri en 36 mánaða. Ef smádót kemst ofan í hólkinn er það of lítið til að yngstu börn megi leika með það.
- Vaktari/Hlustari – til að hlusta eftir börnum.
- Næturljós – fyrir börn sem eru myrkfælin og einnig þau sem þurfa að fara um að næturlagi.
- Öryggisgrind á rúmstokk barna – til að koma í veg fyrir að þau detti fram úr; nauðsynlegt á efra hlaðrúm.
Baðherbergið
- Lyfjaskápur – læstur skápur til að geyma lyf. Kemur í veg fyrir að börn nái í eitruð efni.
- Öryggislæsing á salerni – kemur í veg fyrir að börn sulli í klósettinu og verði fyrir eitrun af ilm- og hreinsiefnum.
- Hálkumotta og strimlar – fyrir baðker og sturtubotna til að koma í veg fyrir fall.
Eldhúsið
- Læsing fyrir bakaraofn – hentar einnig á suma örbylgjuofna.
- Setja ávalt potta og pönnur á aftari hellur ef hægt er til a koma í veg fyrir að börn nái til þeirra.
- Öryggislæsing á ískáp – hindrar að börn komist í lyf eða önnur hættuleg efni.