Lítil börn að leik sjást illa þegar bakkað er úr innkeyrslum eða öðrum bílastæðum.
Alvarleg slys hafa orðið þegar bakkað hefur verið á barn, jafnvel á litlum hraða. Barnið getur fest undir bílnum og orðið fyrir lífshættulegum áverkum. Algengast er að slysin verða þegar foreldrar, ættingjar eða vinir eru að bakka hægt úr innkeyrslunni.
Varast þarf sérstaklega börn á aldrinum 1-2 ára sem eru bæði lítil og enn svo miklir óvitar að þau forða sér ekki frá bílum. Einnig eru þau líkleg til að elta foreldra sína eða aðra nána að bílnum og fyrir hann.
Nokkrar mikilvægar staðreyndir um slys í innkeyrslum:
- Flest slys á börnum í innkeyrslum gerast við heimili þess.
- Oftast gerast slysin að degi til og í góðu veðri. Þá er algengara að börn séu úti að leika.
- Algengast er að börnin séu á aldrinum 1-2 ára.
- Meirihluta þeirra bíla sem bakka á börn eru jeppar og sendibílar, en erfitt getur verið að sjá úr öllum bílum.
- Þó bílar séu útbúnir með skynjara eða myndavél er ekki víst að ökumaðurinn sjái lítið barn eða nái að stoppa tímalega.
Góð ráð
- Fylgstu vel með börnum þegar þau eru úti að leika sér, sérstaklega ef þau eru í nánd við bíla. Ekki leyfa börnum að leika sér í innkeyrslunni.
- Ef þú þarft að bakka eða færa bíl úr innkeyrslu er best að setja barnið inn í bílinn. Ekki treysta að þau haldi sér kyrr fyrir á öruggum stað.
- Læstu útidyrahurðum og/eða notaðu öryggishlið eða beisli til að halda börnum frá innkeyrslunni.
- Gakktu hringinn í kringum bíl þinn áður en þú bakkar hann út úr innkeyrslunni.