Kynnið ykkur þær öryggisreglur sem í gildi eru hjá flugfélaginu. Þær geta verið mjög mismunandi á milli flugfélaga og því er mikilvægt að þekkja þær til þess að geta gert viðeigandi ráðstafanir.
Hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar ferðast er með börn í flugi.
Börn yngri en 2 ára
Ekki er nauðsynlegt að kaupa sér sæti fyrir börn yngri en 2 ára. Almennt láta flugfélög foreldra hafa laus sæti ef unnt er og þá getur barnið setið öruggt í barnabílstól.
Ef engin auka sæti eru laus, er bílstólnum komið fyrir annars staðar á meðan flogið er og foreldri situr með barnið í fangi sér. Viðbótarlykkjubelti eru öryggisbelti sem ætluð eru yngstu farþegunum. Þetta belti er þrætt í öryggisbeltið sem hinn fullorðni notar og barnið síðan spennt í það þar sem það situr í fangi hins fullorðna.
Góð ráð
- Barnabílstólar. Fáið upplýsingar hjá flugfreyjum/þjónum um hvernig best sé að festa barnabílstól í sæti, ef hægt er að fá sæti í flugvélinni.
- Handfarangur. Gott er að hafa með sér mat og drykk fyrir börnin. Hafið einnig allt við höndina sem nota þarf við bleyjuskipti. Skiptið ekki á börnum á meðan ókyrrð er í lofti.
- Nesti. Foreldrar sem þurfa að sitja undir börnum sínum ættu að taka með sér nesti sem auðvelt er að borða með barnið í fanginu. Drekkið ekki heita drykki með börn í fanginu.
- Leikföng. Hafið með hluti sem veita börnum öryggiskennd, t.d. snuð, uppáhaldsleikföng eða bækur.
- Eyrnavandamál. Ef börn hafa sögu um eyrnavandamál er æskilegt að hafa samband við lækni áður en haldið er af stað, varðandi ráðleggingar í flugi.
Eldri börn
Börn geta orðið óróleg á löngum ferðum og því gott að hafa eitthvað meðferðis sem stytt getur barninu stundir. Oft finnst þeim skemmtilegast í leikjum sem foreldrið tekur þátt í líka. Undirbúið ferðina í sameiningu og finnið eitthvað skemmtilegt að gera. Gleymið ekki að tímaskyn barna og fullorðinna er ekki hið sama og hjá börnum er tíminn mun lengur að líða.
- Mikilvægt er að börnin sitji ávallt spennt í sætinu á meðan á fluginu stendur vegna hættu á ókyrrð.
- Farið varlega með heita drykki en þeir geta hellst yfir börn.
- Brýnið fyrir börnum að sitja í sætinu á meðan flugferðin stendur yfir. Þau eiga alls ekki að vera á flakki um vélina. Dæmi eru um að börn hafi slasast þegar matarvagnar hafa rekist á þau eða vegna skyndilegrar ókyrrðar.