Börn undir 12 ára hafa ekki þroska og getu til sjá hættur í umferðinni á sama hátt og fullorðir. Því er mikilvægt að huga að öryggi barnsins hvort heldur það gangi, hjóli eða að því sé keyrt í skólann.
Nægur svefn og góð næring áður en lagt er af stað í skólann eykur á getu barnsins til að fylgjast með umferðinni. Mikilvægt er að setja endurskynsmerki á fatnað barnsins.
Gengið í skólann
Best er að börn gangi í skólann ef ekki er um of langa vegalengd að ræða. Bæði fá þau góða hreyfingu og minni hætta af mikilli bílaumferð skapast við skólann.
Mikilvægt er að kenna barninu öruggustu leiðina og fara yfir umferðarreglur. Það er mjög mismunandi hvað börn treysta sér til að gera og foreldrar verða því að meta hvort barnið geti gengið einsamalt í skólann.
Gott að byrja æfa gönguleiðina yfir sumarið ef barnið er að hefja nám í fyrsta sinn eða skipta um skóla. Eins er ekki hægt að ganga að því sem vísu að 7-8 ára börn muni leiðina í skólann frá liðnu vori og því rétt að rifja hana upp með þeim.
Kenndu barninu:
- Að nota alltaf gangbrautir ef þær eru til staðar.
- Að hlaupa aldrei yfir gangbrautina því það er ekki gefið að allir bílar stoppi.
- Að nota handstýrð gangbrautarljós ef þau eru til staðar. Gættu þess að segja barninu að fara aldrei yfir götuna fyrr en bílar hafa stöðvað á öllum akreinum þó að gönguljósið sé grænt.
- Að fara ekki yfir götuna þar sem bílum er lagt meðfram henni þannig sjá þau ekki jafn vel umferðina.
- Að fara helst ekki yfir götu við gatnamót þar sem bílar eru einnig að beygja inn í götuna. Það getur verið afar erfitt fyrir barnið að hafa yfirsýn yfir umferðina.
Hjólað í skólann
Ekki er mælt með því að börn yngri en 12 ára hjóli í skólann yfir veturinn. Börn yngri en 12 ára eiga ekki að hjóla úti á umferðargötum. Rétt er að yfirfara hjólin að hausti. Á öllum hjólum eiga að vera góðar luktir (hvítt að framan rautt að aftan) og gott endurskin í teinum. Reiðhjólamenn ættu að huga að því að þeir sjáist vel.
Samkvæmt lögum eiga börn yngri en 15 ára að vera með hjálm. Gangið úr skugga um að hjálmurinn sé heill og rétt stilltur.
Kenndu barninu:
- Hjólreiðareglur.
- Að taka tillit til gangandi vegfarenda ef hjólað er á gangstéttum.
- Að nota gangbrautir ef það þarf að hjóla yfir götu.
- Að stoppa alltaf við gangbraut og stíga af hjólinu því það gefur barninu tíma til að kanna umferðina. Alvarlegustu hjólreiðarslys barna hafa orðið við þessar aðstæður þegar að þau hjóluðu beint yfir götuna.
Margir skólar setja reglur um reiðhjól. Mikilvægt er að kynna sér þær.
Keyrt í skólann
Oft skapast hætta við skólann þegar fjölda barna er ekið að skóladyrum. Keyrið alltaf varlega við skóla og virðið reglur um 30 km/klst hámarkshraða.
Margir foreldrar eru á síðustu stundu og skapast því oft örtröð fyrir utan skólana rétt áður en að hringt er inn. Margir foreldrar þora ekki að láta barnið ganga í skólann vegna þessa. Öryggi í umferðinni við og á leiðinni í skólann er sameiginlegt verkefni foreldra og skóla.
Í könnun lögreglu á hraðaakstri við skóla hafa það oft verið starfsmenn skólans eða foreldrar sem ekið hafa yfir leyfilegan hámarkshraða. Margir vita ekki af hverju hámarkshraði í íbúðarhverfum og við skóla er 30 km/klst. Það er vegna þess að ef barn hleypur út á götuna í veg fyrir bíl á 30 km/klst þá sleppur barnið með lítil meiðsl. Ef hraðinn er komin upp í 40 km/klst slasast barnið illa og ef ekið er á 50 km/klst þá slasast barnið lífshættulega eða deyr.
Öryggishandbók grunnskóla
Öryggishandbók fyrir grunnskóla er handbók sem inniheldur allar mikilvægustu upplýsingar um öryggi barna í grunnskólum. Handbókina er hægt að finn á vef menntamálaráðuneytis www.menntamalaraduneyti.is