Að línuskauta er vinsæl hreyfing hjá börnum, unglingum og fullorðnum og skemmtileg afþreying fyrir alla fjölskylduna saman. Mikilvægt er að nota hjálm og hlífar til að koma í veg fyrir alvarleg slys.
Slys á línuskautum
- Flestir sem slasast á línuskautum eru börn á aldrinum 5-14 ára.
- Orsök langflestra meiðsla á línuskautum er fall.
- Algengustu meiðslin eru á efri líkama, helst tognun eða beinbrot á úlnlið, handlegg eða fingur. Önnur meiðsl eru m.a. hné- og fótleggsbrot, tognun á ökkla og höfuðáverkar.
- Mest hætta á meiðslum eru hjá byrjendum með lítinn eða engan hlífðarbúnað, sem missa jafnvægið og detta. Vanir línuskautarar að æfa brögð, oft á miklum hraða, eru líka í áhættuhóp.
Góð ráð
Til að fyrirbyggja meiðsl ættu línuskautarar að:
- Hita upp, teygja á og kæla niður.
- Velja línuskauta sem henta aldri og getu. Ef barn er byrjandi er best að velja línuskauta með 3 eða 4 hjólum. Línuskautar með fimm hjólum er fyrir þá sem eru vanari og þá sem skauta lengri vegalengdir. Hafið barnið með þegar línuskautarnir eru keyptir handa því.
- Fara reglulega yfir hjólin á línuskautunum og skoða hvort þau eru slitin eða skítug.
- Læra einfalda tækni, s.s. hvernig á að standa upp, taka af stað, beygja og stoppa.
- Læra að detta rétt. Ef þú missir jafnvægið skaltu krjúpa niður til að minnka fallhæðina. Þegar þú dettur, reyndu að lenda á öxlinni og rúlla þér frekar en að setja hendurnar fyrir þér.
- Skauta á göngustígum, leiksvæðum og skólalóðum en aldrei á umferðargötum.
Öryggisbúnaður
Mikilvægt er að nota eftirfarandi öryggisbúnað:
- Hjálm. Hjólreiðahjálmur hentar ágætlega, en annars er til sérstakur línuskautahjálmur með meiri vörn á hnakkanum, vegna þess hve oft línuskautarar detta aftur fyrir sig. Hjálmurinn þarf að passa vel og vera rétt festur. Ekki á að vera hægt að hnika honum til nema örfáa millimetra á höfðinu.
- Olnboga-, úlnliða- og hnéhlífar.
Götuhokkí
Nokkuð er um að krakkar séu að leika sér í „götuhokkí“. Leyfið börnunum ekki að vera á umferðargötum heldur einungis inn á lokuðu svæði eða stígum. Mikilvægt er að börnin noti réttan öryggisbúnað því mikil hætta er á að þau verði fyrir höggi frá hokkíkylfu. Æskilegt er að notaðir séu mjúkir boltar frekar en harðir, þar sem harðir boltar geta valdið mjög alvarlegum áverkum, sérstaklega höfuðáverkum.