Við val á leikföngum verða kaupendur að hafa í huga að leikföngin hæfi aldri og þroska barna. Þeir verða skoða viðvörunarmerkingar vel og lesa og fara eftir þeim leiðbeiningum sem fylgja leikfanginu.
CE Merkingar
Leikföng sem ætluð eru börnum yngri en 14 ára eiga að vera CE merkt. Merkið er ekki öryggis- eða gæðastimpill heldur til staðfestingar á því að leikfangið uppfylli allar skilgreindar kröfur sem gerðar eru til framleiðslunnar.
Leikföng fyrir 0-3 ára
Þetta merki má sjá á þeim leikföngum og á umbúðum ef leikfangið er ekki við hæfi barna yngri en 3 ára. Ástæða þess er sú að leikfanginu fylgja smáhlutir sem geta valdið köfnunarhættu ef þeir lenda í munni barns.
- Smáhlutir. Hafið í huga að lítil börn smakka á öllu, líka leikföngum. Notið kokhólk til að mæla smáhluti sem geta valdið köfnun hjá börnum. Smáhlutir sem falla ofan í kokhólkinn eru of lítill fyrir börn yngri en 3 ára.
- Hvöss horn. Gætið sérstaklega að því að leikföng hafi ekki hvassar brúnir eða hvöss horn.
- Leikföng sem líkjast matvælum. Varist leikföng eða aðrar vörur sem líkjast matvælum. Ung börn geta sett þau uppí sig með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
- Hnappar. Á brúðum og tuskudýrum þurfa augu, nef, hár og aðrir hnappar að vera vel fest. Þau þurfa einnig að þola þvott.
- Snúrur og bönd. Snúrur og bönd í leikföngum mega ekki vera lengri en 22 cm. Lengri snúrur geta reynst börnum hættuleg þar sem það getur vafið um háls þeirra.
- Teygjur. Teygjubönd föst við leikföng, t.d. bolta, mega ekki vera lengri en 3 cm.
- Límmiðar. Ef límmiðar og slíkt er fest á leikfangið, verið þá viss um að börn geti ekki náð því af og stungið upp í sig.
- Smá-rafhlöður. Spilandi tækifæriskort, blikkandi húfur og aðrir hlutir sem innihalda smá-rafhlöður eru ekki við hæfi yngri barna, þar sem rafhlaðan getur losnað og valdið köfnunarhættu. Slíkar rafhlöður innihalda einnig eiturefni sem geta verið ætandi (sáramyndandi) í meltingarvegi.
- Blöðrur. Blöðrur eru ekki æskilegar fyrir börn yngri en 8 ára. Þær geta valdið dauðaslysum. Ef blaðra springur þarf að gæta að því að henda öllum hlutum hennar. Álblöðrur eru hættuminni en latex blöðrur.
- Hávær leikföng. Leikföng sem gefa frá sér há og hvell hljóð eiga að vera með viðvörunarmerkingu þess efnið að leikfangið eigi ekki að bera upp að eyra, þar sem það getur skaðað heyrn.
- Gæði. Leikfangið þarf að vera sterklegt. Börn yngri en 3 ára þurfa leikföng sem þola mikið hnjask. Leikföng úr harðplasti skal velja vel en sum þeirra brotna auðveldlega. Skemmt leikfang sem getur hugsanlega skaðað börn verður að laga eða henda.
Leikföng fyrir 3-5 ára
Fyrir börn á aldrinum 3-5 ára er mikilvægt að velja leikföng sem þau ráða við, sérstaklega hvað varðar hraða og jafnvægi. Vinsæl og góð leikföng á þessum aldri eru snjóþotur, stórir kubbar, dúkkur, bílar, leikbrúður, leir og einföld hljóðfæri. Forðist stýrissleða og annað sem nær miklum hraða.
- Smáhlutir. Enn skal varast að velja leikföng sem eru passlega stór og ekki með smáum aukahlutum.
- Hvöss horn. Forðist leikföng sem eru með hvassar brúnir eða odda.
- Eldfim efni. Veljið búninga sem ekki eru úr eldfimu efni.
- Segull. Forðist leikföng með seglum.
Segul leikföng
Segul leikföng hæfa ekki börnum yngri en 8 ára. Hættan við þessi leikföng er sú að ef börn gleypa fleiri en einn segul þá leita þeir hvorn annan uppi og geta fest saman í maga. Við það geta innyfli festast saman sem hefur áhrif á starfsemi þeirra. Á umbúðum leikfanga með segli á að vera viðvörun sem varar við hættunni ásamt aldursviðvörun.
Vitað er um nokkur tilfelli þar sem þetta hefur gerst meðal barna á aldrinum 12 mánaða til 10 ára, þ.m.t. eitt banaslys. Þessi leikföng hafa verið afar vinsæl og því ekki óeðlilegt að þau sé ennþá að finna í barnaherbergjum og að upplýsingar um hættuna hafi ekki náð allra eyrum.
Leiðbeiningar
- Gangið ætíð í skugga um að notkunarleiðbeiningar fylgi leikfanginu. Lesið þær vel áður en börn fá leikfangið í hendurnar og farið eftir þeim. Einnig verður að lesa vel samsetningar- og viðhaldsleiðbeiningar, sem og upplýsingar um notkun hlífðarbúnaðar. Allar varúðarmerkingar sem fylgja leikföngum barna eiga að vera á íslensku.
- Hafið í huga aldur barna. Skoðið vel allar merkingar á leikfanginu og á umbúðunum. Á mörgum leikföngum eru merkingar sem sýna fyrir hvaða aldur leikfangið er ætlað, s.s. +5 ára. Hafið einnig í huga getu og áhuga barna.
- Gangið frá plastumbúðum utan af leikfanginu áður en börn fá það í hendur.