Jól

Hluti af undirbúningi jólanna er að athuga hvort þau ljós sem nota á séu í lagi. Óvandaður, skemmdur eða rangt notaður ljósabúnaður getur valdið bruna og slysum. Engin jólaljós eru svo örugg að hægt sé að útiloka íkveikju af þeirra völdum

Ljós á jólatré

Látum aldrei loga á ljósum á jólatrénu yfir nótt eða þegar við erum að heiman.

Gömul jólaljós

Þegar farið er yfir jólaljósin er áríðandi að skipta tafarlaust um brotnar klær og brotin perustæði. Allar rafmagnsleiðslur eiga að vera heilar, einangrun alls staðar í lagi og ekki má sjá í bera víra.  Ef þið eruð ekki viss hvort ljósin séu í lagi látið þá fagmenn yfirfara þau.

Réttar perur

Notið ætíð ljósaperur af réttri gerð, stærð og styrkleika. Ef þið eruð ekki viss um hvernig perur vantar í seríur, farið þá með seríuna í tilheyrandi verslun og fáið ráðgjöf.

Brennanleg efni og rafmagnsljós

Brennanleg efni mega ekki vera nálægt jólaljósum. Sýna verður aðgát gagnvart pappírsskrauti sem sett er utan um ljósaperur. Ef ljósapera liggur við brennanlegt efni t.d. pappír er stórhætta á íkveikju.

Inniljós má aldrei nota utandyra

Jólaljós utandyra eiga að vera sérstaklega gerð til slíkrar notkunar. Á öllum jólaljósum eða umbúðum þeirra, sem seld eru hér á landi sem inniljós, á að standa á íslensku að þau séu eingöngu til notkunar innanhúss. Að nota inniljós utandyra getur verið lífshættulegt.

Útiljósakeðjur

Útiljósakeðjur sem ekki eru tengdar við spennubreyti (12V-24V) eiga að vera vatnsvarðar. Perur útiljósa eiga alltaf að vísa  niður svo að ekki sé hætta á að vatn safnist í perustæðin. Útiljós á að festa vandlega þannig að perur geti ekki slegist við.