Hoppurólur

Forvarnahúsið mælir ekki með notkun hoppuróla fyrir börn. Þær eru ekki góðar fyrir líkama barns þar sem álag á bak og fætur er meira en æskilegt er. Einnig hafa orðið í þeim alvarleg slys þegar þær hafa fallið óvænt niður af dyrakarminum.

Að velja hoppurólu

HoppurólaEfnið í sæti hoppurólunnar þarf að vera slitsterkt og allir saumar þurfa að vera sterkir. Götin fyrir fæturna mega ekki vera það stór að hætta sé á að barnið renni úr rólunni en ekki það lítil að hætta sé á að þau særi barnið á lærunum.

Mikilvægt er að festingar sem festa hoppuróluna á dyrakarminn séu sterklegar og traustar. Þær þurfa að vera svo stífar að ekki sé hætta á að þær glennist í sundur og hætta skapist á að rólan detti niður.

Með hoppurólunni ættu að fylgja ítarlegar leiðbeiningar þar sem fram koma m.a. hámarks aldur og þyngd barns.

Notkun

  • Hoppurólur eru einungis fyrir börn sem ná að halda höfði vel og hafa sterka bakvöðva. Ekki nota hoppurólu fyrir barn sem getur ekki setið óstutt. Þær eru venjulega ætlaðar börnum sem náð hafa 6 mánaða aldri.
  • Fylgið leiðbeiningum um uppsetningu, notkun, hámarks aldur og þyngd og viðhald.
  • Ekki festa hoppurólu þar sem undirlag er hart, s.s. flísar eða steinsteypa.
  • Festu hoppuróluna rétt og tryggilega á dyrakarminn. Kannaðu festingarnar reglulega.
  • Stillið hoppuróluna fyrir barnið (stærð sætisins og hæð þess).
  • Aldrei skilja barn eftir í hoppurólu án eftirlits.
  • Fylgist með eldri systkinum. Slys hafa orðið þegar þau ýta barninu í rólunni, hanga á henni eða jafnvel setjast í hana sjálf.
  • Notið hoppuróluna í stutta stund í einu.