Slys á hlaupahjólum
Börn hafa hlotið alvarlega innvortis áverka við það að detta á of lágt stillt handfang. Ef handfangið er of hátt fyrir barnið getur það lent með andlitið á handfanginu og brotið tennur.
Góð ráð
Ekki er ráðlegt að leyfa barni yngra en 5 ára að vera á hlaupahjóli. Mjúk og stór dekk á hlaupahjólum eru öruggust og geta komið í veg fyrir fall í ójöfnum. Til að fyrirbyggja meiðsl á hlaupahjóli skal:
- Stilla hjólið rétt fyrir barnið. Til að stilla hæð handfangsins skal láta barnið standa á hjólinu, halda olnbogum að mittinu og handleggjum beint fram. Stillið handfangið í þessari hæð og festið vel.
- Yfirfara hlaupahjólið reglulega. Kannið hvort hjólin séu slitin og hvort hemlarnir virka.
- Velja öruggt leiksvæði og banna notkun hlaupahjóla í brekkum. Þar geta þau farið of hratt og misst stjórn á hjólinu.
Öryggisbúnaður
- Reiðhjóla- eða brettahjálmur.
- Hlífar á olnboga, úlnliði og hné.
- Stamir skór sem styðja vel við fótinn.
Ef barn nær ekki að halda utan um handfang hlaupahjólsins með úlnliðshlífina á sér, er barnið líklegast of lítið til að vera á hlaupahjóli.