Hjólaskór

Hjólaskór eru hættulegri en fólk grunar. Algjör misbrestur er á því að foreldrar láti börn sín nota öryggisbúnað þegar þau renna sér á svokölluðum hjólaskóm líkt og framleiðendur skónna ráðleggja. Börn hafa bæði fengið heilahristing og beinbrotnað hér á landi eftir að hafa dottið á hjólaskóm.

Slys á hjólaskóm

Algengasti áverkurinn eftir slys á hjólaskóm er brotinn úlnliður. Það gerist með þeim hætti að barnið ber hendur fyrir sig þegar það er að reyna að ná jafnvægi og fellur. Einnig getur lítill steinn fests í hjólinu með þeim afleiðingum að barnið dettur. Aðrir algengir áverkar eru handleggsbrot, olnbogar úr lið, áverkar á fót eða ökkla, sem og brotin bein í fæti.

Þar að auki er varað við því að börn noti skóna dagsdaglega. Þegar börn vilja eða geta ekki rennt sér á skónum þurfa þau að ganga á tánum sem hefur áhrif á líkamsburð þeirra og setur auka álag fótleggina, ökklana og bakið.

Hvernig gerast slysin?

Flest slys á hjólaskóm gerast í fyrstu vikunni eftir að barnið fær skónna og er að læra á þá. Skórnir eru hannaðir þannig að notandinn getur hallað sér afturábak, rúllað hjólunum eða gengið á skónum. Slysin verða flest með þeim hætti að barnið missir jafnvægi, fellur aftur eða fram fyrir sig um leið og barnið reynir að færa þyngd líkamans og finna jafnvegi á hjólunum.

Slys gerast einnig þegar notandinn er orðinn mjög vanur og er farinn að taka vissa áhættu. Oft verða árekstrar á milli barnanna og gangandi og þá sérstaklega eldra fólks sem hefur dottið og brotnað við áreksturinn.

Hvernig má koma í veg fyrir slys?

  • Kennið börnum á hjólaskóna og hvernig þeir virka, hjálpið þeim að stoppa og finna jafnvægið. Verið með þeim þegar þau eru að æfa sig.
  • Brýnið fyrir börnum að vera ekki með fætur saman heldur í fram/aftur stöðu þannig halda þau betur jafnvægi.
  • Notið persónuhlífar s.s. úlnliðshlífar, hjálma, grifflur, hné- og olnbogahlífar, sérstaklega á þjálfunartímanum og ef reynt er að gera kúnstir á skónum.
  • Ekki má vera á skónum út á götu heldur á gangstétt eða lokuðum svæðum. Ekki er ráðlegt að vera á skónum í möl eða sandi þar sem það eyðileggur hjólin.
  • Ekki láta skóna rúlla á svæðum sem eru holótt eða ekki jöfn s.s. tröppur, brúnir, ójafnar gangstéttir.
  • Kennið börnum að virða umferð annarra s.s. gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk.