Árlega slasast fjöldi barna og unglinga á hjólabrettum. Hægt er að fyrirbyggja alvarleg meiðsl með notkun hjálma og hlífa.
Slys á hjólabrettum
- Flestir sem slasast á hjólabrettum eru byrjendur.
- Næst oftast slasast sem hafa notað bretti í eitt ár eða meira. Þeir slasast helst þegar brettið fer yfir grjót eða annað ójafnt yfirborð þegar þeir eru að gera erfið brögð.
- Orsök langflestra meiðsla á línuskautum er fall.
- Algengustu meiðslin eru á efri líkama, helst tognun eða beinbrot á úlnlið, handlegg eða fingur. Önnur meiðsl eru m.a. hné- og fótleggsbrot, tognun á ökkla og höfuðáverkar.
Góð ráð
Börn undir 5 ára aldri ættu ekki að vera á hjólabrettum. Til að fyrirbyggja meiðsl ættu allir á hjólabrettum að:
- Hita upp, teygja á og kæla niður.
- Velja hjólabretti sem hentar aldri, getu og notkun.
- Fara reglulega yfir hjólin á brettinu og skoða hvort þau eru slitin, skítug eða laus. Hjólin eyðast og því þarf oft að skipta um þau.
- Læra einfalda tækni og æfa jafnvægið.
- Læra að detta rétt. Ef þú missir jafnvægið skaltu krjúpa niður til að minnka fallhæðina. Reyndu að lenda á öxlinni ef þú dettur og rúlla þér frekar en að setja hendurnar fyrir þér.
- Nota hjólabretti á lokuðum leiksvæðum, skólalóðum eða hjólabrettapöllum en aldrei á umferðargötum.
Aldrei grípa í bíl, strætó eða reiðhjól þegar þú ert á hjólabretti.
Öryggisbúnaður
Mikilvægt er að nota eftirfarandi öryggisbúnað:
- Hjálm. Hjólreiðahjálmur hentar ágætlega, en annars er líka til sérstakur hjólabrettahjálmur. Hjálmurinn þarf að passa vel og vera rétt festur. Ekki á að vera hægt að hnika honum til nema örfáa millimetra á höfðinu.
- Olnboga-, úlnliða- og hnéhlífar.
- Skór með stömum botni.
- Hanskar.
Hjólabrettapallar
Hjólabrettapallar sem komið er fyrir á opnum svæðum þar sem börn hafa frjálst aðgengi að og eru ekki afgirtir eða læstir falla undir ákvæði reglugerðar nr. 942/2002 um leikvelli, leikvallatæki og eftirlit með þeim. Þar segir m.a. að slík svæði og brettapallar eigi að vera teknir út af faggiltum óháðum aðila áður en þeir eru teknir í notkun til þess að tryggja öryggi þeirra. Ástand þeirra og öryggi á síðan að vera tekið út á sama hátt og leikvallatæki sveitafélagsins.