Hestamennska

Hestamennska er vinsæl, holl og skemmtileg útivist.

Flest meiðsl tengd hestamennsku verða vegna þess að knapi dettur af baki eða hestur sparkar í eða stígur á hann. Börn lenda einnig í að verða bitin af hestum. Alvarleg slys og dauðaslys hafa orðið þegar ekið hefur verið á hestamenn.

Algengustu meiðslin eru minniháttar mar og skurðir – en þau alvarlegri eru m.a. beinbrot, heilahristingur og lömun.

Góð ráð

Til að fyrirbyggja að falla af hesti, skal hestamaður:

 • Velja hest sem hæfir getu hans.
 • Velja öruggt umhverfi sem hæfir getu hans.
 • Sækja námskeið til að læra einfalda tækni, s.s. hvernig skal beygja, stoppa og detta rétt.
 • Vera meðvitaður um hættur í umhverfinu.

Ef þú ert við það að detta af baki, skaltu reyna að losa fætur þínar úr ístöðin og rúllaðu hratt frá hestinum til þess að lenda ekki undir honum. Forðastu að setja hendurnar fyrir þér. Best er að reyna krjúpa sig saman og verja höfuðið.

Öryggisbúnaður hestamanna

Til að tryggja öryggi hestamanna er mikilvægt að þeir noti eftirfarandi öryggisbúnað:

 • Reiðhjálmur
 • Öryggisvesti
 • Reiðstígvél
 • Endurskinsmerki
 • Hanskar
 • Öryggisístöð

Fylgið leiðbeiningum varðandi stillingar og umhirðu öryggisbúnaðs.

Hestar í umferðinni

Hestar teljast til farartækja og hafa sama rétt að fara um vegi og bílar. Hestafólk og bílstjórar þurfa að taka tillit til hvors annars í umferðinni til að tryggja öryggi.

Ökumenn í nánd við hesta

hestarMikilvægt er að ökumenn taki tillit til hestafólks og sýni sérstaka aðgát í nánd við hesthúsahverfi. Þegar ökumaður kemur að hestum í umferðinni skal hann:

 • Hægja á ferðinni.
 • Gefa hestunum mikið svigrúm og vera viðbúinn að stoppa.
 • Víkja greiðlega frá hestinum þegar keyrt er framúr.
 • Ekki flauta eða vera með önnur læti sem gætu fælt hestinn.
 • Þekkja og taka tillit til merkjagjafa hestamannsins sem sýna hvert hann stefnir í umferðinni.
 • Ekki keyra á milli eða skipta upp hóp af reiðmönnum sem eru að fara yfir götu. Hleypa skal öllum hestunum saman í hóp yfir götuna.

Mótorhjólamenn eru hvattir til að sýna sérstaka aðgát. Mótorhjól eru háværari en bílar og flestir hestar óvanir þeim.

Hestamenn í umferðinni

Í útreiðatúrum skal helst nota reiðstíga eða önnur aflokuð svæði þar sem ekki er önnur umferð, en ekki má ríða eftir gangstéttum eða göngustígum.

Þegar riðið er á vegum í blandaðri umferð skal hestamaðurinn:

 • Bera endurskinsmerki, s.s. endurskinsvesti, og vera sýnilegur bílstjórum.
 • Nota sömu merki og hjólreiðamenn áður en beygt er til að sýna hvert hann stefnir. Halda skal með báðum höndum í beislið á meðan á beygju stendur.
 • Fylgja hægri reglunni á vegum og hafa hestinn eins nálægt kanti og hægt er.
 • Forðast að ríða eftir vegum með mikla bílaumferð, í myrkri eða í þoku eða snjókomu.
 • Gefa ökumönnum merki um að hægja ferðina eða stoppa ef hestur verður órólegur.

Gott er að muna að þakka ökumönnum fyrir að sýna aðgát og tillit til hestamanna í umferðinni. Farið samt gætilega – oft er nóg að brosa og kinka kolli í þakkarskyni.

Börn á hestbaki í umferðinni

Kenna þarf börnum umferðarreglur, merkjagjöf og önnur öryggisatriði áður en þeim er leyft að vera á hestbaki í umferðinni. Best er ef börn geta riðið samhliða (fyrir innan) vanari hestamann. Aldrei skulu fleiri en tveir hestar ríða samhliða.