Til að tryggja slysalaus áramót þarf að sýna mikla aðgát við meðhöndlun flugelda, fylgja leiðbeiningum og nota viðeigandi öryggisbúnað.
Slys og tjón
Árlega slasast fjöldi barna af völdum flugelda.
- Drengir á aldrinum 8-14 ára er sá hópur sem oftast slasast af völdum flugelda.
- Flest slys verða vegna þess að fullorðnir eru ekki að fylgjast með börnunum.
- Áverkarnir sem börnin hljóta eru yfirleitt alvarlegir og má þar nefna djúp brunasár, augnáverka og jafnvel fingurmissir. Einnig getur heyrn skaðast af hvellum sprengjum.
Ekki má gleyma dýrunum sem eru viðkvæm fyrir hávaðanum frá flugeldum.
Reglur
Í reglugerð 952/2003 um flugelda segir að ekki megi selja flugelda nema á tímabilinu 28.desember til 6. janúar ár hvert, að báðum dögum meðtöldum. Sama gildir um notkun flugelda.
Í reglugerðinni kemur einnig fram að öll sala flugelda til barna undir 12 ára er óheimil. Börn á aldrinum 12-16 ára mega kaupa flugelda sem eru með litlu magni af púðri en foreldrar barna á þessum aldri þurfa að vera sérstaklega á varðbergi því það eru þau sem eru einmitt mest að fikta með skotelda.
Öryggisbúnaður
Eftirfarandi öryggisbúnaður er nauðsynlegur við meðhöndlun flugelda:
- Hlífðargleraugu
- Hanskar
- Hólk til að skorða flugelda vel
- Sjúkrakassi
Góð ráð
- Fylgið leiðbeiningum sem fylgja flugeldum.
- Breytið ekki eiginleikum flugelda.
- Geymið flugelda á öruggum stað.
- Hafið eftirlit með börnum í nánd við flugelda.
Þegar skotið er upp:
- Veljið slétt og stöðugt undirlag á opnu svæði.
- Skjótið ekki flugeldum nærri húsum, við brennur eða í mannfjölda.
- Gætið þess að loka gluggum og hurðum.
- Kveikið í flugeldum með útréttri hendi – bogrið ekki yfir þeim.
- Víkið strax frá eftir að kveikt hefur verið í skoteldum – haldið öðrum í fjarlægð.
- Reynið ekki að kveikja aftur í skoteldum sem áður hefur verið kveikt í.
- Fjarlægið notaða skotelda með varúð.