Fjallgöngur

Að ganga á fjöll og firnindi er góð og vinsæl hreyfing hér á landi, enda búum við á einstaklega fallegu landi. Regluleg ganga þjálfar stoðkerfið,  hjarta- og æðakerfi, lungu og taugakerfið.

fjallganga_myndAð ganga er flestum fært en til að koma í veg fyrir meiðsl þarf að velja gönguleiðir eftir líkamsgetu, skipuleggja ferðina vel og vera með réttan búnað. Algengustu meiðsl í göngum eru álagsmeiðsli og tognun einkum á ökkla, hné og mjöðm. Alvarlegri slys gerast oftast ef gangan er ekki vel skipulögð og ekki réttur búnaður hafin meðferðis. Þá getur fólk m.a. týnst, orðið kalt eða ofreynt sig.

Mundu að láta alltaf vita af ferðum þínum, hvenær þú ert væntanleg/væntanlegur heim og ekki víkja frá þeirri áætlun án þess að láta aðstandendur vita.

Athugið að veðurfar getur gert öruggustu gönguleiðir hættulegar. Til dæmis mikilli rigningu geta myndast aur- og grjót skriður og er því mikilvægt að huga vel að veðri.

Líkamsgeta

Öll almenn hreyfing, s.s. að hjóla, skokka, ganga eða synda, gefur góðan grunn til fjallgangna. Í fjallgöngu þarf að geta gengið upp og niður brekkur, bera byrgðir á bakinu, klöngrast yfir hrjúft undirlag og hraun, haldið jafnvægi, hoppað yfir læki, vaðið o.s.frv.

Fyrir krefjandi göngur er mikilvægt að hafa góða þol- og styrktarþjálfun.

Að skipuleggja gönguferð

Þegar ganga er skipulögð skal hafa m.a. eftirfarandi atriði í huga:

  • Veður. Kanna þarf veðurspánna á því svæði sem gengið verður en vera viðbúin öllum aðstæðum.
  • Gönguleið. Kanna þarf aðstæður á gönguleiðinni, t.d.hvort gengið verður í snjó, yfir vatn og upp/niður miklar brekkur og hafa með viðeigandi búnað.
  • Farangur. Undirbúið vel hvað þarf að taka meðferðis, t.d. mat, búnað og fatnað. Mikilvægt er að taka ekki of mikið með sér ef bera þarf farangurinn á bakinu.

Búnaður

Ýmis búnaður er notaður í göngur til að fyrirbyggja slys og meiðsl, m.a.:

  • Góðir gönguskór
  • Hlýr fatnaður
  • Nesti (t.d. orkubita og vatn)
  • Göngustafir
  • Mannbroddar
  • Legghlífar
  • Samskiptabúnaður, s.s. farsíma eða talstöð
  • GPS
  • Sjúkrakassi
  • Sólarvörn

Fjallareglurnar 10

  1. Gerðu raunhæfa ferðaáætlun með hliðsjón af landakortum og árstíð.
  2. Tilkynntu um:
    • Hvenær þú ætlar að fara
    • Hvert þú ætlar
    • Hverjir fara
    • Hvenær þú hyggst koma til baka.
  3. Langferðir krefjast þjálfunar. Ekki leggja upp í langferð án undirbúnings. Gefðu þér nægan tíma og haltu jöfnum hraða. Fylgstu með ferðafélögunum og gættu þess að enginn dragist mikið aftur úr.
  4. Fylgstu með veðurspám og veðurútliti. Haltu ekki áfram skeytingarlaust ef veður versnar
  5. Snúðu við í tæka tíð. Það er engin skömm af því að vera skynsamur. Farðu að ráðum reyndra fjallamanna
  6. Ætlaðu þér ekki um of í byrjun. Þegar þú hefur öðlast reynslu getur þú lagt í erfiðri ferðir.
  7. Vertu viðbúinn því versta, jafnvel í stuttum ferðum. Hafðu ávallt meðferðis lágmarksútbúnað, s.s.:
    • Nesti til sólarhrings
    • Hlífðarföt
    • Varafatnaður
    • Landakort
    • Áttaviti
    • Flauta
    • Neyðarblys
    • Sjúkrabúnaður
  8. Ferðastu ekki einsamall. Haltu hópinn og fylgdu fararstjóranum. Taktu ekki að þér fararstjórn fyrr en þú hefur öðlast góða reynslu í ferðamennsku.
  9. Ef þú lendir í villu eða slæmu veðri skaltu spara kraftana og leita skjóls í tæka tíð.
  10. Gleymdu ekki góða skapinu.