Í rannsókn sem gerð var hér á landi fyrir nokkrum árum kom í ljós að slys hjá ungum börnum eru talsvert algeng í verslunum og á veitingahúsum. Fram kom að í flestum tilfellum mátti rekja slysin til ónægs eftirlits með börnunum. Í verslunum leynast oft hættur því er mikilvægt að smábörn séu ekki að ráfa ein um.
Fall yngri barna úr innkaupakerrum eru eitt af alvarlegustu slysunum sem börn verða fyrir í verslunum. Algengt er að sjá stálpuð börn sitja í körfunni. Innkaupakerrur eru ekki ætlaðar til að flytja börn í nema að þau noti þar til gert sæti. Stöðugleiki körfunnar gerir einungis ráð fyrir að barn sitji í sætinu.
Fyrir lítið barn að detta úr innkaupakerru niður á steingólf samsvarar því að fullorðinn detti ofan af bílskúr niður á steypta stétt. Það skýrir hversu alvarlegir áverkarnir geta orðið.
Hvað geta foreldrar gert til að fyrirbyggja þessi slys?
- Látið barnið alltaf sitja í þar til gerðu sæti. Leyfileg hámarksþyngd eru 15 kg.
- Börn eiga aldrei að sitja í körfunni sjálfri.
- Ekki má yfirgefa smábarn eitt augnablik í körfunni.
- Veljið alltaf körfu sem er með belti fyrir barnið ef hún er til.
- Hægt er að nota venjulegt beisli með smá breytingu til að festa barnið í sætinu.
- Þegar ekið er út á bílastæði þá skal þess gætt að forðast holótt malbik.
- Þegar kerra er valin er mikilvægt að gæta þess að hjólin virki eðlilega.
Ef barnið er í ungbarnastól er mikilvægt að skorða það örugglega.
Þessi atriði sem eru talin hér upp að framan byggjast öll á slysum sem hafa orðið á börnum í innkaupakerrum. Það er því mikilvægt að foreldrar og forráðamenn fari eftir þessum ábendingum til að koma í veg fyrir þessi slys.