Endurskinsmerki

Það skiptir öllu máli að börn og barnavagnar séu vel sýnileg í umferðinni. Börn á gangi án endurskinsmerkja sjást fyrst í u.þ.b. 20-30 metra fjarlægð frá bíl sem ekur með lág ljós, en í u.þ.b. 120-130 metra fjarlægð ef þau eru með endurskinsmerki.

Mikið úrval

Til eru margar gerðir af endurskinsmerkjum, s.s. endurskinsborða, hangandi merki, klemmur og límmerki á barnavagna og snjóþotur. Þau fást m.a. í lyfjaverslunum. Í vefnaðarvöruverslunum fást líka borðar til að sauma á flíkur eða festa með frönskum rennilás.

Skábelti til að setja yfir öxlina hafa verið mjög vinsæl og á leikskólum hafa endurskinsvesti verið mikið notuð og reynst vel.

Börn eiga að sjást vel af öllum hliðum

Best er að kaupa yfirhafnir á börn sem hafa áföst endurskinsmerki. Einnig er hægt að sauma eða líma endurskinsræmur á fötin, en börnin gleyma oft að hengja á sig endurskinsborða og merkin vilja losna úr vösunum eða af ermum. Endurskinsræmur á að sauma eða líma neðst á úlpu, ermar og skálmar og þær eiga helst að ná allan hringinn. Smábútar af endurskini hér og hvar gera lítið gagn.

Skólatöskur með endurskini eru mjög góðar. Mælt er með að keypt séu kuldaskó og stígvél með endurskinsrönd. Endurskinslímmerki eru ágæt til að líma á t.d. barnavagna, sleða, bakpoka og skíðastafi.

Staðsetning endurskinmerkja skiptir miklu máli. Þau eiga að vera neðarlega, sjást frá öllum hliðum og vera hrein. Endurskinsefni eru mjög misjöfn og þola sum þeirra þvott en önnur ekki. Þvottur og núningur getur því dregið úr endurskini.

Skipta þarf um merkin af og til því þau vilja rispast.  Aðalatriðið er þó að muna eftir merkjunum alltaf og allsstaðar!