Drukknun

Á árunum 1984-1993 drukknuðu eða nærdrukknuðu 48 börn á aldrinum 0-14 ára. Vegna nýrra reglna á sundstöðum hefur þessum slysum fækkað um 55% frá 1994 til dagsins í dag.

Athyglisvert er að drukknunum barna hefur fjölgað í öðrum Evrópulöndum á sama tíma.

Nærdrukknun er þegar að barn fer í hjarta- og öndunarstopp er endurlífgað og lifir slysið af heilbrigt eða með skemmdir á heila sökum súrefnisskorts.

Drukknun ungbarna

Ekkert kemur í stað eftirlits fullorðinna með börnum.Ung börn geta drukknað á innan við 3 mínútum í aðeins 2-5 cm djúpu vatni. Drukknun getur átt sér stað víða s.s. í sundlaug, baði, setlaug, ám, lækjum og ekki síst pollum. Það getur gerst mjög skyndilega og hljóðlega án hrópa eða busls í vatninu.

Ekki má treysta eingöngu á sundkennslubúnað, s.s. armakúta eða sundjakka. Börn á þessum aldri eru forvitin og sífellt á ferðinni. Ef þau lenda í erfiðleikum hafa þau litla möguleika á að bjarga sér m.a. vegna þess að höfuð þeirra er hlutfallslega mjög þungt og stórt miðað við líkamann og því eiga þau erfitt með að lyfta höfðinu upp til að ná andanum. Þungur og fyrirferðar mikill fatnaður gerir þeim erfitt fyrir að koma sér upp og ekki má gleyma að kuldi vatns getur dregið fljótt úr kröftum þeirra.

Aldrei skilja barn eftir eftirlitslaust í nálægt við vatn. Ekkert kemur í stað eftirlits fullorðinna með börnum.

Ungbarnasund

Námskeið í ungbarnasundi eru vinsæl hjá foreldrum ungra barna. Með því að fara með barnið í sund fyrir 6 mánaða aldur er hægt að viðhalda ósjálfráðu köfnunarviðbragði sem barnið fæðist með. Köfnunarviðbragðið veldur því að öndunarvegurinn lokast þegar barnið andar í kafi og vatnið snertir kokið. Ef þetta ósjálfráða viðbragð er þjálfað reglulega getur það orðið að sjálfráðu viðbragði. Þannig getur barnið lært að bregðast við því að fara á kaf í vatni. Það getur komið sér vel ef barnið fellur óvænt í vatn, en er alls ekki örugg björgun fyrir það.

Skyndihjálp

Mikilvægt er að kunna skyndihjálp. Rétt og skjót viðbrögð á slysstað geta bjargað mannslífi. Dauði vegna drukknunar verður vegna skorts á súrefni til heila og hjarta. Heilaskaði eða jafnvel dauði getur hlotist á innan við 3 mínútur.