Börn á aldrinum 6-12 ára verða fyrir alvarlegri beinbrotum en þau sem yngri eru. Þau taka áhættur eins og að hjóla ofan af bílskúrsþaki eða klifra upp á há þök án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum ef þau detta. Þau hafa fyrirmyndir úr sjónvarpi og tölvuleikjum þar sem hlutirnir líta oft hættulausir út.
Höfuðáverkar hjá börnum á þessum aldri má oftast rekja til frítímaslysa eða íþróttaslysa. Þegar börn verða eldri er hættara við að þau hætti að nota hjálma. Hér á landi er reglugerð sem kveður á um að börn undir 15 ára aldri noti reiðhjólahjálma og það er mikilvægt að foreldrar gefi það ekki eftir.
Höfuðáverkar eru með alvarlegustu áverkum sem börn geta hlotið. Heili barna á þessum aldri er enn að þroskast og getur afleiðing eftir minniháttar höfuðáverka komið í veg fyrir að heilinn þroskist á eðlilegan hátt.
Þegar barn verður fyrir höfuðhöggi
Hringið strax í Neyðarlínuna 112 ef barnið:
- Missir meðvitund (jafnvel bara í stuttan tíma).
- Hættir ekki að gráta.
- Kvartar yfir höfuðverk eða stirðleika í hálsi.
- Slangrar um eða virðist vankað.
- Á erfitt með öndun.
- Svimar eða kastar upp.
Ef barnið missir meðvitund skal hringja strax í neyðarlínuna 112. Reynið ekki að hreyfa eða færa barnið. Notið skyndihjálparkunnáttuna ef þú hefur þjálfun í henni. Snúið barninu varlega ef það kastar upp eða fær flogakast.
Ef barnið hefur ekki misst meðvitund og hegðar sér eðlilega, skal:
- Kæla áverkasvæðið (kúluna) með köldum þvottapoka í 20 mínútur. Setjið ekki klaka beint á húð barnsins.
- Fylgjast vel með barninu næstu 24 stundir og fara strax með barnið til læknis ef það hegðar sér óeðlilega.
- Ef höggið verður stuttu fyrir svefntíma, fylgjast sérstaklega með barninu þegar það sefur. Athugið á nokkra klukkustunda fresti öndun barnsins, húðlit og hreyfingar. Ef barnið hegðar sér eðlilega þarf ekki að halda því vakandi.
Treystu sjálfum þér! Ef þér finnst barnið vera öðruvísi en venjulega, skaltu fara strax með barnið slysadeild/heilsugæslustöð.