Brot og höfuðáverkar

Þroski barna er ör á fyrstu 2 árum ævinnar. Við 3-4 mánaða aldur hafa þau náð tökum á því að velta sér en við það eykst hættan á því að þau geti dottið. Það er því ekki öruggt að skilja þau eftir eftirlitslaus eitt augnablik.

Fljótlega eftir að börn fara að ganga geta þau klifrað upp í töluverða hæð. Við 2-5 ára aldur ráða þau við flókið klifur og komast jafnvel upp á bílskúrsþök.

Beinbrot

Bein barna eru mýkri og viðkvæmari en bein fullorðinna. Þau geta því auðveldlega brotnað við fall eða önnur óhöpp. Algengastu brot hjá ungum börnum er viðbeinsbrot.

Börnum yngri en 5 ára er hættara en öðrum að fara úr olnbogalið. Það er því mikilvægt að kippa ekki ógætilega í handlegginn á þeim þegar þau hrasa. Þegar barn hefur einu sinni farið úr lið getur það auðveldlega gerst aftur og aftur.

Höfuðhögg

Börn yngri en 7 ára verja sig ekki falli með því að setja hendurnar fyrir sig. Þar sem höfuð barna er stórt og þungt, verður það almennt fyrst fyrir högginu.

Alvarlegustu áverkarnir verða þegar að börn lenda á skarpri bún eða falla úr mikilli hæð ofan á hart undirlag (flísar).

Komdu í veg fyrir brot og höfuðhögg

  • Háir fletir. Skiljið aldrei börn eftir á háum fleti, s.s. á borði, rúmi eða stól.
  • Hámarkshæð. Börn undir 5 ára aldri ættu ekki að fá að klifra hærra en 1,5 metra og eldri börn ekki hærra en 2 metra.
  • Öryggisbúnaður. Setjið öryggishlið fyrir stiga og tröppur og öryggislæsingar á alla glugga til tryggja að þeir opnist ekki meira en 9 cm. Notið beisli í hástólum og barnavögnum.
  • Göngugrindur. Ekki er mælt með notkun göngugrindar því þau komast á mikla ferð eða 25 km/klst.
  • Kojur. Efri koja er ekki talin örugg fyrir börn yngri en 6 ára.
  • Innkaupakerrur. Leyfið börnum aldrei að standa í eða hanga utan á innkaupakerru og skiljið þau aldrei eftir ein og eftirlitslaus.
  • Hjálmar. Venjið börn á að nota hjólreiðahjálm um leið og þau byrja að hjóla á þríhjólinu. Börn sem stunda skíði þurfa að vera með sérstakan skíðahjálm.

Þegar barn verður fyrir höfuðhöggi

Hringið strax í Neyðarlínuna 112 ef barnið:

  • Missir meðvitund (jafnvel bara í stuttan tíma)
  • Hættir ekki að gráta
  • Kvartar yfir höfuðverk eða stirðleika í hálsi
  • Slangrar um eða virðist vankað
  • Á erfitt með öndun
  • Svimar eða kastar upp

Ef barnið missir meðvitund skal hringja strax í neyðarlínuna 112. Reynið ekki að hreyfa eða færa barnið. Notið skyndihjálparkunnáttuna ef þú hefur þjálfun í henni. Snúið barninu varlega ef það kastar upp eða fær flogakast.

Ef barnið hefur ekki misst meðvitund og hegðar sér eðlilega, skal:

  • Kæla áverkasvæðið (kúluna) með köldum þvottapoka í 20 mínútur. Setjið ekki klaka beint á húð barnsins.
  • Fylgjast vel með barninu næstu 24 stundir og farið strax með barnið til læknis ef það hegðar sér óeðlilega.
  • Ef höggið verður stuttu fyrir svefntíma skal fylgjast sérstaklega með barninu þegar það sefur. Athugið á nokkra klukkustunda fresti öndun barnsins, húðlit og hreyfingar. Ef barnið hegðar sér eðlilega þarf ekki að halda því vakandi.

Treystu sjálfum þér! Ef þér finnst barnið vera öðruvísi en venjulega, skaltu fara strax með barnið á slysadeild eða heilsugæslustöð.