Hvort sem barn býr í sveit, fer í sumarvist eða stutta heimsókn, þá getur það verið góð upplifun. Barnið er umkringt náttúru og dýrum og fær oft að taka þátt í ýmsum verkum sem er bæði styrkjandi og þroskandi.
Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að sveitabær er líka vinnustaður og þar leynast ýmsar hættur fyrir börn.
Öryggi barna í sveitinni
- Börn í umhverfinu. Tilkynnið öllum á bænum ef börn eru í heimsókn og að það sé ástæða til að hafa augun opin og fara varlega með vélar og tæki.
- Reglur. Kennið börnum skýrar reglur um hvað má og má ekki í sveitinni og fylgið þeim eftir.
- Fylgið eigin reglum. Börn horfa á og herma eftir því sem þau sjá í kringum sig. Ef þú fylgir öryggisreglum þá eru meiri líkur á því að barnið geri það líka.
- Skyndihjálp. Mikilvægt er að kunna skyndihjálp ef eitthvað kemur fyrir. Þetta á sérstaklega við í sveitinni þar sem það getur tekið lengri tíma að komast undir læknishendur.
Ung börn í sveitinni (0-5 ára)
- Leiksvæði. Gott er að girða af leiksvæði fyrir ung börn til að halda þeim frá hættum.
- Barnagæsla. Þegar mikið er að gera getur reynst erfitt að fylgjast með börnunum í sveitinni. Gerið ráðstafanir, s.s. að fá ömmu, frænku eða barnfóstru til að koma og gæta barnanna í sveitinni þegar aðrir eru uppteknir að vinna.
- Vötn, lækir og ár. Passið að börn komist ekki í vötn, læki eða ár þar sem hætta er á drukknun. Einnig þarf að varast afveituskurði, dældir í túnum og önnur svæði þar sem vatn getur safnast, sérstaklega á vorin í leysingjum.
- Eitur. Ekki geyma hættuleg efni þar sem börn ná til.
- Áburðarpokar. Bretti með áburðarpokum geta reynst hættusöm. Slys hafa orðið þegar að þungir staflar hafa dottið á lítil börn þegar að stærri börn eru að klifra og leika sér upp á þeim. Einnig skapast hætta á köfnun þegar búið er að taka plastið utan af brettinu og lítil börn vefja plastið utan um andlitið á sér.
- Dýr. Kennið börnum að umgangast dýrin í sveitinni. Óvarleg umgengni getur leitt til bita eða sparka.
- Tæki. Haldið börnum frá öllum tækjum sem þau geta slasað sig á. Gangið vel frá vélum og geymið þau í læstum skápum eða skúrum.
- Vinnuvélar. Mikilvægt er að engin börn leiki sér í nánd við hættulegar vinnuvélar.
Eldri börn og unglingar í sveitinni (5 ára og eldri)
- Líkamsbeiting. Þegar barn vinnur verk í sveitinni skal passa sérstaklega líkamsbeitingu barnsins til að forðast streitu og áverka á líkama þess. Barn skal aldrei lyfta neinu sem er þyngra en 10-15% af líkamsþyngd þess.
- Öryggisbúnaður. Börn skulu nota viðeigandi öryggisbúnað þegar þau vinna verk í sveitinni, s.s. hanska, hlífðargleraugu, hjálma, heyrnahlífar.
- Hestar. Börn skulu alltaf nota hjálm og öryggisvesti þegar þau eru á hestbaki. Meta þarf líka getu, stærð og aldur barnsins þegar hestur er valinn.
- Dráttarvélar. Börn yngri en 16 ára mega ekki aka dráttarvélum nema að hafa takið til þess próf. Ekki leyfa börnum að „sitja uppí“ þar sem þau geta slasast alvarlega ef þau detta úr eða lenda undir dráttarvélinni. Kennið börnum að labba ekki upp að dráttarvélum því það getur verið erfitt fyrir ökumanninn að sjá þau.
- Lyklar að vélum. Ekki geyma lykla að vélum og tækjum þar sem börn ná til. Slökktu á tækinu þegar það er ekki í notkun og taktu lyklana með þér.
- Fjórhjól. Ekki er leyfilegt fyrir börn eða unglinga að aka fjórhjólum, til þess þarf hefðbundin ökuréttindi á bifreið.