Barnið eitt heima

Barnið eitt heimaForeldrar þurfa að ákveða hvenær barnið þeirra er orðið nógu gamalt til að vera eitt heima. Þetta eru merkileg tímamót í lífi barnsins og foreldranna en nauðsynlegt er að meta líkamlegan, andlegan og tilfinningalegan þroska barnsins.

  • Er barnið tilbúið?
  • Er heimilið öruggt umhverfi?

Íslendingar búa við mun öruggara samfélag en mörg önnur lönd og eru því oft óhræddari við að skilja börn eftir ein heima. Hins vegar eru slys alveg jafn algeng og annars staðar.

Góð ráð

Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að skilja barnið eftir eitt heima er gott að undirbúa það vel.

  • Neyðarlínan. Kenndu barninu að hringja í Neyðarlínuna 112. Kenndu barninu „einn-einn-tveir“ ekki „hundrað og tólf“. Vertu líka viss um að barnið kunni heimilisfang sitt og símanúmer.
  • Æfing. Æfðu með barninu hvað skal gera í neyð, t.d. ef það slasar sig, það kviknar eldur í húsinu eða það verður vart við innbrotsþjóf.
  • Prufutími. Þegar barn er skilið eftir í fyrsta sinn, skaltu fara frá í skamman tíma og halda þér nálægt heimlinu. Slík prufa er góð leið til þess að kanna hvort barnið sé tilbúið að vera eitt heima, ræður við aðstæðurnar og líður vel.
  • Upplýsingar. Segðu barninu hvenær þú kemur heim. Skildu eftir símanúmer þar sem barnið nær í þig, ættingja eða vini. Þetta eykur öryggistilfinningu barnsins. Hringdu og láttu vita af þér ef þú getur, eða fáðu einhvern til að koma við.
  • Reglur. Hafðu skýrar reglur um hvað barnið má og má ekki gera á meðan það er eitt heima. Til dæmis, má barnið fara út? Má barnið fá til sín gesti? Má barnið elda?
  • Matur. Keyptu inn mat og drykk sem barnið getur auðveldlega haft til sjálft.
  • Lyklar. Mundu að gefa barninu lykil ef það þarf að komast inn, s.s. úr skóla og ef barnið má fara út á meðan það er eitt heima. Vertu líka viss um að barnið geti opnað útidyrahurðina hjálparlaust.

Þó barn sé tilbúið til að vera eitt heima, getur liðið langur tími þangað til það er tilbúið að passa yngri systkini sín.