Barn sem farþegi

Ekki er ráðlegt að hjóla með barn fyrr en það hefur náð a.m.k. 9 mánaða aldri.

hjolad_barn_myndBörnum yngri en 15 ára er óheimilt að hjóla með önnur börn, en við 15 ára aldur er þeim heimilt að hjóla með börn yngri en 7 ára, svo framalega sem barninu er ætlað sérstakt sæti.

Hjálmur

Þegar hjólað er með smábarn er það algert skilyrði að það sé með hjólreiðahjálm við sitt hæfi. Hægt er að fá hjólreiðahjálma fyrir börn frá 9 mánaða aldri.

Að velja stól

Velja þarf barnastóll á hjólið sem uppfyllir ströngustu kröfur markaðsins. Flestir stólar eru gerðir fyrir börn 9-18 kg. Athugaðu að velja sæti sem hæfir þyngd barnsins.

Best er að velja stól sem festist aftan á hjólið, en ef keyptur er stóll sem festist að framan skal það fara á milli hjólreiðamannsins og stýrisins.

Að festa stólinn

Lesa þarf leiðbeiningarnar sem fylgja stólnum ítarlega og gæta vel að því að hann sé rétt festur á hjólið. Allar festingar þurfa að vera vel hertar. Spenna þarf beltin í stólnum þannig að þau liggi þétt að líkama barnsins. Fætur barnsins þurfa að vera á réttum stað og ólarnar vel festar. Algengasta hámarksþyngd sem gefinn er upp fyrir barnastóla á reiðhjól er 18 kg, enda erfitt að hjóla með börn þyngri en það.

Góð ráð

  • Aldrei má skilja smábarn eftir í barnastól þegar ekki er verið að hjóla. Mikil hætta er á að hjólið detti á hliðina og barnið með. Þetta er ein helsta orsök slysa á smábörnum sem sitja í svona stólum.
  • Velja þarf stól með fóthvílu fyrir fætur barnsins. Þær verja fætur barnsins frá því að festast í teinum hjólsins.
  • Hafa verður veðrið í huga þegar farið er út að hjóla með smábarn, því í miklu roki og kulda getur barninu orðið fljótt kalt þar sem það situr kyrrt í stólnum. Sá sem hjólar finnur e.t.v. ekki eins mikið til kulda og barnið.
  • Mikilvægt er að hjólreiðamaðurinn sé ekki með bakpoka á bakinu þegar hann hjólar með smábarn. Bakpokinn er í sömu hæð og höfuð barnsins og getur því valdið óþægindum.