Af gefnu tilefni er ástæða til að vera vakandi fyrir öryggi matarstóla fyrir lítil börn. Tveggja punkta belti geta verið varasöm og ættu allir matarstólar að vera með þriggja punkta belti.
Í kjölfar fréttar hér í morgun vill IKEA koma á framfæri að innköllunin sem minnst var á er frá því í janúar 2015. Hún snerist um að biðja viðskiptavini að skipta út beltinu í vissum framleiðslunúmerum af ANTILOP barnastólnum. Þeir hafa þó verið með þriggja punkta belti síðan 2004.
Eftirfarandi er innköllunin eins og hún birtist þá:
IKEA innkallar belti í ANTILOP barnastól
IKEA biður vinsamlega þá viðskiptavini sem eiga ANTILOP háan barnastól frá framleiðanda númer 17389 og með framleiðsludagsetningar 0607-0911 að hafa samband við þjónustuver IKEA. Beltið getur opnast við notkun, sem skapar slysahættu. Erlendis hafa borist átta tilkynningar um belti sem opnast og í þremur þessara tilfella duttu börn úr stólnum og meiddust óverulega. IKEA á Íslandi hafa ekki borist tilkynningar um slys. Innköllunin nær aðeins yfir ANTILOP stóla frá framleiðanda númer 17389 með framleiðsludagsetningar 0607-0911. Númer framleiðanda og framleiðsludagsetning eru prentuð neðan á sætið.
Viðskiptavinir sem eiga ANTILOP barnastól eru beðnir að athuga númer framleiðanda og framleiðsludagsetningu. Ef númer framleiðandans er 17389 og framleiðsludagsetningin er 0607-0911 eru þeir vinsamlega beðnir að koma í IKEA verslunina eða hafa samband við þjónustuver í síma 520 2500 til að fá nýtt belti þeim að kostnaðarlausu.